Öllum Akureyringum stendur til boða ýmiskonar ókeypis heilsurækt frá og með morgundeginum. Þá verður samfélagsverkefninu Hreyfingu og útivist hleypt af stokkunum undir stjórn Jónatans Þórs Magnússonar handboltakappa.
„Við rennum alveg blint í sjóinn varðandi þátttöku. Búið er að auglýsa þetta einu sinni og töluvert hefur verið spurt en það kemur í ljós [á morgun] hvernig fólk bregst við,“ sagði Jónatan í gær.
Meðal þess sem fólki stendur til boða er að fara á gönguskíði, í fótbolta í Boganum og þá verða tímar í leikfimi og jóga fyrir konur, þar sem boðið verður upp á barnapössun og þannig sérstaklega höfðað til kvenna sem eru heima með ung börn.
Forráðamenn Knattspyrnufélags Akureyrar fengu hugmyndina í kjölfar bankahrunsins en hún vatt upp á sig og þeir fengu aðra í lið með sér. Í upphafi var fyrst og fremst hugsað um þá sem væru í vandræðum vegna ástandsins í þjóðfélaginu, fólk sem missti vinnuna, en síðan var ákveðið að hreyfingin og útivistin stæði öllum til boða.
Takmarkið með verkefninu er, að sögn verkefnisstjórans, að stuðla að heilbrigðara lífi fólks, bæði hvað varðar líkama og sál.