Óttast fjölgun í bekkjum og fækkun kennara

mbl.is/Sverrir

Stærri bekkir og færri kennarar eru meðal þeirra hagræðingaraðferða sem talið er að sum sveitarfélög muni grípa til í kjölfar erfiðrar rekstrarstöðu. Stærð bekkja hefur hins vegar óumflýjanlega áhrif á gæði kennslu, enda minnkar með því móti tíminn sem kennarinn getur veitt hverjum nemanda.

Engar reglur hafa verið til um hámarksfjölda í bekk frá því að sveitarfélögin tóku grunnskólastarfið yfir. Áður var hámarksfjöldi nemenda í bekk á unglingastigi hins vegar 28 nemendur og var talan lægri á neðri námsstigum. „Rökin fyrir því að setja engar reglur um hámarksfjölda var að þeirra þyrfti ekki við. Sveitarstjórnarmönnum myndi aldrei detta í hug að fjölga í bekkjum frá því sem verið hefði,“ segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Til þessa hefur þróunin líka verið sú að nemendum hefur heldur fækkað.

Stærðin segir þó ekki allt því að samsetning nemendahóps hefur líka sitt að segja. Að sögn Ólafs Loftssonar, formanns félags grunnskólakennara, má t.a.m. gera ráð fyrir að allt að 4-5 nemendur í hverjum bekk í Reykjavík þurfi á einhverri séraðstoð að halda. „Bekkirnir ættu samkvæmt því að minnka, ekki stækka,“ segir hann.

Og líkt og Eiríkur bendir á þá er sérkennsla ekki málaflokkur sem þolir að vera settur á ís í einhver ár. „Það er mikilvægt að hafa í huga, þegar verið er að skoða skólakerfið, að þetta eru einstaklingar og það getur valdið þeim varanlegum skaða sé því frestað að taka á málefnum þeirra,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert