Staða bankastjóra Glitnis verður auglýst

Reuters

Formaður stjórnar Nýja Glitnis segir að staða bankastjóra verði auglýst laus til umsóknar á næstunni. Það sé vilji ríkisstjórnarinnar, og þar með eina hluthafa bankans.

„Ég átti í dag fund með fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra að þeirra ósk. Þar skýrðu þeir frá því að það væri vilji ríkisstjórnarinnar, og þar með eina hluthafans í bankanum, að staða bankastjóra yrði auglýst. Jafnframt kom fram að það væri á verksviði stjórnar bankans að ákveða hvenær og hvernig staðan verði auglýst. Stjórnin mun fjalla um þetta mál á næstu dögum og ræða við bankastjórann og taka ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti staðan verður auglýst,“ segir Valur Valsson, formaður stjórnar Nýja Glitnis.

„Stjórnin mun fjalla um málið á næstu dögum eins og fram hefur komið. Ég mun að sjálfsögðu skoða það hvort ég sæki um stöðuna þegar hún verður auglýst,“ sagði Birna Einarsdóttir, núverandi forstjóri Nýja Glitnis, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert