Þjóðfélagið er fjölskyldan

Sturla Jónsson, formaður Framfaraflokksins.
Sturla Jónsson, formaður Framfaraflokksins. mbl.is/Kristinn

„Þjóðfélagið er fjölskyldan“ er yfirskrift framkvæmdalista Framfaraflokksins sem Sturla Jónsson stofnaði síðastliðið haust. Fyrsti hluti framkvæmdalistans hefur verið birtur en þar er áherslan lögð á nýjan gjaldmiðil, aðgerðir vegna skulda heimilanna og afkomu eldri borgara og öryrkja.

„Starfið fer rólega af stað. Við ákváðum að senda út þennan fyrsta hluta framkvæmdalistans núna en alls eru 14 atriði á listanum sem við viljum leggja áherslu á. Þau koma hvert á fætur öðru. Svo fer þetta á fullt þegar við förum að sjá hilla undir kosningar. Við höfum ekki úr að spila hundruðum milljóna króna úr almannasjóðum til að kynna starf okkar og stefnu, líkt og þeir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi,“ segir Sturla Jónsson, formaður Framfaraflokksins.

Í þessum fyrsta hluta framkvæmdalistans segir að grunnur hvers þjóðfélags sé fjölskyldan. Þjóðfélag með brotnar fjölskyldur geti aldrei staðið undir nafni. Þess vegna verði að standa vörð um fjölskyldurnar í landinu hvað sem það kostar.

„Og við verðum að sýna þeim stuðning og virðingu og framkvæma nú þegar aðgerðir sem tryggja lágmarksafkomu þeirra,“ segir Sturla.

Framfaraflokkurinn segir að það verði í fyrsta lagi gert með því að skipta um gjaldmiðil í landinu nú þegar til að tryggja stöðugleika í fjármálum heimilanna. Með því verði tryggt að ríkisvaldið geti ekki skaðað fjármál heimilanna með tilviljanakenndum sveiflum á gjaldmiðlinum og okurvaxtastefnu. Verðbólgan verði hamin, verðskyn eflist og samanburður milli landa í vöruverði og launakjörum verði raunhæfur. Þá verði vinnustundir metnar að verðleikum miðað við önnur lönd.

Í öðru lagi segir Framfaraflokkurinn að koma verði böndum á skuldir heimilanna. Fjölskyldurnar geti ekki risið undir lánunum eins og þau eru í dag og grípa verði í taumana til þess að tugþúsundir fari ekki á vergang.

„Bankakerfið getur þar að auki ekki tekið við þúsundum húsa og íbúða eftir uppboð, það myndi ríða því að fullu. Þess vegna verður að grípa til aðgerða nú þegar. Lífeyrissjóðirnir eiga vel á annað þúsund milljarða króna sem fólkið hefur lagt þeim til. Nú er lag að nota hluta þessa fjármagns til að gera upp skuldir heimilanna, þannig nýtist fjármagnið fyrir fólkið á þessum erfiðum tímum. Lífeyririnn sem fólkið hefur skapað sér í gegnum árin yfirfærist á eignir þeirra, sem verða skuldlausar og ígildi lífeyris í staðinn. Jafnvel er hugsanlegt að nota peningana einnig til að losna undan oki Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og skapa þannig svigrúm fyrir Íslendinga að leysa málin með sínu lagi,“ segir Framfaraflokkurinn.

Þar með rynni vaxtakostnaður til íslenska þjóðfélagsins en ekki til annarra landa. Ríkisvaldið tryggði á móti viðunandi lífeyri fyrir alla landsmenn á eftirlaunaaldri með þeim fjármunum sem ella hefðu verið nýttir til vaxtagreiðslna á erlendum lánum. Með þessum hætti segir Framfaraflokkurinn, verður tryggt að allir halda heimilum sínum og allir eiga fyrir mat. Þannig skapast meiri ró hjá fjölskyldunum og þar af leiðandi í þjóðfélaginu og óvissunni um grunnafkomu verður eytt.

Flokkurinn segir brýnt að tryggja afkomu eldri borgara og öryrkja og nýta eigi lífeyrissjóðina til þess.

Sturla Jónsson segir þessar hugmyndir vel framkvæmanlegar núna.

„Vitaskuld munu einhverjir rísa upp og mótmæla, en ríkisvaldið mun aldrei geta gert neitt til lausnar þessum vanda án þess að einhverjir mótmæli. Það verður að hafa bein í nefinu til að takast á við lausn þessara mála strax í dag, þótt einhverjum finnist vera gengið á sinn hag. Lífeyrissjóðirnir munu álíta að þeir tapi, en til lengri tíma litið munu þeir hagnast á þessum aðgerðum. Þetta er betri kostur en að þjóðfélagið leysist upp í óeirðum, þjófnaði og skemmdum vegna fólks sem hefur lagt á sig ómælda vinnu í áraraðir en misst allt vegna óreiðu nokkurra manna, fjármálastofnana og rangrar lagasetningar,“ segir Sturla.

Framfaraflokkurinn, sem var stofnaður í haust, hefur fengið listabókstafinn A og unnið er að uppsetningu heimasíðu flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert