Tryggvi: Gert að beiðni fyrirtækjasviðs Landsbankans

Tryggvi Jónsson.
Tryggvi Jónsson. mbl.is/ÞÖK

Tryggvi Jónsson, fyrrum forstjóri Baugs Group og starfsmaður Landsbankans, segir að hann hafi komið að málum Árdegis að beiði fyrirtækjasviðs Landsbankans. Eins og fram hefur komið í fréttum voru eignir Árdegis seldar til Senu og Hagar, dótturfélag Baugs, eignaðist þrotabú Árdegis.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Tryggva. Árdegi átti meðal annars BT, Skífuna og verslanirnar Next og Noa Noa.

Yfirlýsing Tryggva er eftirfarandi:

Erfitt að verjast snjöllum meisturum samsæriskenninga

Vegna umfjöllunar RÚV um störf mín hjá Landsbankanum, og tengist sölu eigna Árdegis til Senu annars vegar og þrotabús Árdegis til Haga hins vegar, vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

  • Ég kom að málum Árdegis að beiðni fyrirtækjasviðs Landsbankans.  Á þeim tíma lá ekkert fyrir um að eignir félagsins yrðu seldar. 
  • Í lok október sl. var fyrirsjáanlegt að ekki yrði hægt að forða Árdegi frá gjaldþroti.  Árdegi átti á þessum tíma fundi með fyrirtækjasviði og var ég beðinn um að koma þar að.  Á fundinum lýsti forstjóri Árdegis yfir áhyggjum af því að geta ekki greitt starfsmönnum sínum laun vegna októbermánaðar.  Sala á einingum frá félaginu til að eiga fyrir launum var rædd.
  • Forstjóri Árdegis sagði aðspurður að Sena væri líklegasti kaupandinn að Skífunni og Hagar eða Max Raftæki kaupendur að BT tölvum.  Ég spurði hann hvort hann vildi að ég hringdi í stjórnendur þessara fyrirtækja til að koma á sambandi og vildi hann það.
  • Ég sat einn fund ásamt viðskiptastjóra og lögfræðingi bankans þar sem forsvarsmenn Senu og Skífunnar ræddu m.a. mögulegt söluverð.  Ég kom ekki að því að semja um söluverð eða fjármögnun á kaupum Senu á Skífunni.
  • Árdegi var í viðræðum við fleiri aðila um hugsanleg kaup á Skífunni.  Árdegi hafði því fleiri valkosti en Senu sem kaupanda.  Af hverju samningur varð á milli Senu og Skífunnar geta samningsaðilar einir upplýst.  Það þekki ég ekki.
  • Ég sat einn fund ásamt viðskiptastjóra og lögfræðingi bankans þar sem hugsanleg sala milli Árdegis og Haga á BT var rædd.  Eins og kunnugt er varð ekki af þeim viðskiptum, heldur keyptu Hagar BT af bústjóra nokkrum vikum síðar. 
  • Ég hafði ekki frekari afskipti af málefnum Árdegis.  Ég ræddi ekki við bústjóra, né aðra aðila, og þekki ekki þau samskipti sem þar áttu sér stað.
  • Í viðtali sem birtist við mig á mbl.is 16. desember sl. sagðist ég ekki koma nálægt málum sem tengdust Baugi.  Við það stend ég.  Í þeim tilvikum sem hér um ræðir var ég að vinna að málefnum Árdegis.  Fyrir utan að koma á fundum að beiðni Árdegismanna, sbr. lýsingar hér að framan, hafði ég ekki frekari afskipti af þeim viðskiptum.  Það, að ég hafi hér verið að sinna Baugstengdum verkefnum, er útúrsnúningur.

Það er augljóst að það hentar einhverjum að gera störf mín fyrir Landsbankann ótrúverðug.  Við því er ekkert að segja annað en það að ég vann fyrir Landsbankann alla tíð af fullum heilindum og gætti ekki neinna annarra hagsmuna.  Eftir á að hyggja kann að vera að ég hefði ekki átt að koma á sambandi milli semjenda, eða neita að mæta á þá fundi sem ég var beðinn um.  Ísland er hins vegar lítið land og margir þekkja marga.  Vera kann einnig að áhugi Árdegismanna á að selja svokölluðum Baugsfyrirtækjum rekstur sinn hafi líka átt rætur að rekja til þess að bróðir eiganda Árdegis vann hjá Baugi í allmörg ár eða til tengsla stjórnarmanns Árdegis við Baug.

 Fyrir einstaklinga er erfitt að verjast snjöllum meisturum samsæriskenninga, ekki síst þegar fjölmiðlar láta glepjast og smitast af því andrúmslofti sem einkennir umræðu um íslenskt viðskiptalíf.  Það er líkt og reglan sé orðin sú að hafa skal það sem betur hljómar, en það sem satt reynist.  Og þegar sönnunarbyrði er snúið við, þar sem sakleysi skal sannað, falla flestar varnir þeirra sem ekkert hafa til sakar unnið.

Í störfum mínum fyrir Landsbankann hafði ég aðeins eitt markmið: Að gæta hagsmuna bankans af trúmennsku og festu.  Með engum hætti hef ég gengið erinda annarra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert