Útilit er fyrir að veiðiheimildir sjávarútvegsfyrirtækja geti fallið mikið í verði, jafnvel um 80 prósent, á næstu mánuðum fari svo að fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja lendi í rekstrarerfiðleikum og gjaldþroti eins og margt bendir til. Er þá miðað við 80 prósent af tæplega 4.000 kr. á kílóið á þorski sem það var þegar það fór hæst. Þetta fullyrða útgerðar- og bankamenn sem Morgunblaðið ræddi við í gær.
Heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja nema 360 til 420 milljörðum króna. Þar af eru kröfur vegna framvirkra gjaldmiðlaskiptasamninga 25 til 30 milljarðar króna, miðað við gengisvísitöluna 175. Það er sú gengisvísitala sem var á markaði þegar Fjármálaeftirlitið tók Landsbankann yfir 6. október. Gengisvísitalan féll hins vegar hratt eftir það og var 230 þegar FME tók Kaupþing yfir aðfaranótt 9. október. Samningar sem fyrirtæki gerðu við Glitni og Kaupþing kunna því að verða gerðir upp með öðrum hætti en þeir sem gerðir voru við Landsbankann.
Þar eru stærstu kröfurnar, eða um 18 milljarðar. Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu byggðust samningarnir á því að hagnast á styrkingu krónunnar. Það gerðist ekki, heldur veiktist krónan mikið.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær er umtalsvert af veiðiheimildum veðsett fyrir lánum inni í bankakerfinu. Nákvæmar upplýsingar um stöðuna liggja þó ekki fyrir, samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
Áður en gömlu bankarnir þrír hrundu hafði verð á veiðiheimildum lækkað nokkuð. Miðað við síðustu viðskipti með veiðiheimildir var verðið um 2.500 krónur á kílóið af þorski.
Eins og áður sagði fór það hæst í um 4.000 krónur fyrrihluta ársins 2007 en hafði árin á undan farið stighækkandi samhliða miklum efnahagsuppgangi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa útgerðarmenn margir hverjir áhyggjur af því að fiskur seljist illa á erlendum mörkuðum á næstu mánuðum. Þegar er farið að bera á því að birgðir safnist upp og þá hefur verð á fiski fallið hratt. Þetta getur einnig leitt til lækkunar á veiðiheimildum.