Viðræður hafnar um endurnýjun kjarasamninga

Hús ríkissáttasemjara.
Hús ríkissáttasemjara. mbl.is/Golli

Viðræður eru að hefjast um endurnýjun kjarasamninga. Í morgun var haldinn fyrsti sameiginlegi fundur viðsemjenda á almenna vinnumarkaðinum og hjá ríki og sveitarfélögum. samninganefndar ASÍ, Samtaka atvinnulífsins, allra aðildarsambanda opinberra starfsmanna og fulltrúa samninganefndar ríkisins og launanefndar sveitarfélaga.
 

Settir verða á fót þrír vinnuhópar sem taka til starfa á mánudaginn. Í fyrsta hópnum verður fjallað um kjaramálin, annar hópur tekur fyrir velferðar- og skattamál og í þriðja hópnum verða atvinnumálin til umfjöllunar, þar á meðal starfsemi væntanlegs endurreisnarsjóðs atvinnulífsins. 

Stefnt er að því að samkomulagi verði náð fyrir 15. febrúar á almenna vinnumarkaðinum en flestir samningar opinberra starfsmanna renna út í mars.

 „Þetta var okkar fyrsti fundur um framlengingu kjarasamninganna. Á fundinum skipulögðum við vinnuna sem framundan er og röðuðum niður verkum. Það var samhljómur meðal fundarmanna en viðfangsefnið er gríðarlega stórt. Við ætlum að hittast aftur strax eftir næstu helgi og við munum reyna að fá ríkið að þessu með okkur strax frá upphafi,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, eftir fundinn.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að ekkert sé farið að reyna á efnisatriði. Viðræðurnjar séu á frumstigi en allir virðist vilja vera samstíga í þeirri vinnu sem framundan er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert