30% fyrirtækja í hættu

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir könnun samtakanna í sumar hafi bent til þess að 70% fyrirtækja væru öflug og gætu staðið af sér mikla storma en 30% fyrirtækjanna væru veik og í hættu þegar erfiðleikar steðja að. Veruleikinn, sem nú sé að koma í ljós, virðist staðfesta þetta.  

Vilhjálmur segir, að bankarnir gegni lykilhlutverki við uppstokkun fyrirtækja. Þeir muni hafa forystu í endurskipulagningu á fjárhag þeirra og í mörgum tilvikum leggja þeim til nýtt eigið fé. Viðskiptavinir bankanna í atvinnulífinu gagnrýni að ákvarðanataka bankannasé hvergi nærri nógu virk og markviss. Mál dragist, skipt sé oft um skoðun, þekkingu á einföldum þáttum skorti, starfsmenn fælist ábyrgð og stefnumótun sé ábótavant.

„Þessi gagnrýni skýrist að stórum hluta af því að efnahagsreikningur hinna nýju banka liggur ekki fyrir og þeir vita ekki hvernig þeir sjálfir standa og ennfremur hjálpar það ekki til að bankarnir eru ríkisbankar með öllu því stefnuleysi sem slíku fyrirkomulagi óhjákvæmilega fylgir," segir Vilhjálmur í leiðara í fréttabréfi SA í dag.

Hann segir, að verkefni bankanna sé ærið og afar mikilvægt við uppstokkun atvinnulífsins. Eignarhald fyrirtækja megi ekki festast á höndum bankanna heldur verði að vinna markvisst að því að koma fyrirtækjum í hendur einstaklinga á nýjan leik.  Þá hjálpi háir vextir  ekki bönkunum. Enginn eðlilegur rekstur standir undir 25% vöxtum og þaðan af hærri né heldur tveggja stafa vaxtatölum á verðtryggðum lánum. Vandamálin hrannist því upp í bönkunum í stóran afskriftahaug sem einhvern tímann þurfi að moka burt. Erlend lán atvinnulífsins skapi  líka óviðráðanleg vandamál fái bankarnir  ekki eðlilegan aðgang að erlendu lánsfé.

„Nauðsynlegt er að skýra stöðu bankanna sem fyrst. Óvissan eykur á vandann, tefur ákvarðanir og eykur stefnuleysi. Lækka verður vextina til þess að minnka vandann því að fyrirsjáanleg útlánatöp með þessum háu vöxtum er ekkert annað en uppskrift að hruni nýju bankanna þá loksins þegar og ef þeir komast af stað," segir Vilhjálmur Egilsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert