Fréttaskýring: Botnlausar skuldir íslensku þjóðarinnar vegna bankahruns

Í lánamálum ríkisins sem Seðlabankinn birti í fyrradag kemur fram að ríkissjóður skuldi um 653 milljarða króna. Sú skuldastaða tekur hins vegar ekki tillit til þeirra skulda sem ríkið hefur nú þegar eða mun þurfa að stofna til vegna hruns íslenska bankakerfisins í byrjun október síðastliðins.

Stærsti hluti þeirra skulda sem tiltekin voru í lánamálum, 335 milljarðar króna, eru innlendar skuldir. Þar er um að ræða útgefin ríkisbréf, ríkisvíxla og spariskírteini. Þá eru erlend langtímalán ríkisins samtals metin á 318 milljarða króna. Í september voru heildarskuldir ríkissjóðs 470,7 milljarðar króna eða 182,3 milljörðum króna lægri en samkvæmt þeim gögnum sem birt voru á þriðjudag.

Þær skuldir sem þjóðin þarf að axla vegna bankahrunsins munu þó hækka þessa skuldastöðu mjög.

Icesave- og Edge-ævintýrið

Þegar er ljóst að íslenskir skattgreiðendur þurfa að greiða himinháar fjárhæðir vegna erlendra innlánsreikninga Landsbankans og Kaupþings þrátt fyrir að allar erlendar eignir þeirra verði seldar á móti kostnaði. Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar, sagði í Morgunblaðinu í desember að líklega myndu um 150 milljarðar króna falla á ríkissjóð og þar með íslenska skattgreiðendur vegna Icesave þegar búið væri að selja eignir gamla bankans.

Íslenska ríkið þarf þó ekki einungis að hafa áhyggjur af mismuninum sem lendir á skattgreiðendum, heldur þarf líka að hafa áhyggjur af kjörum þeirra lána sem það hefur skuldbundið sig til að taka vegna netreikningaævintýra bankanna tveggja. Ísland þarf nefnilega að taka lán fyrir allri ábyrgð tryggingasjóðs innstæðueigenda á þessum reikningum. Löndin þrjú, Bretland, Holland og Þýskaland, hafa þegar boðist til að lána Íslendingum fyrir þessum ábyrgðum og íslenskir ráðamenn hafa þegar samþykkt að taka við þeim lánum. Um óheyrilega háar fjárhæðir er að ræða og því ljóst að kostnaður vegna þeirra mun verða gríðarlegur. Því skiptir miklu máli að viðunandi lánakjör bjóðist.

Samtals 695 milljarða lán

Þýska ríkið samþykkti í nóvemberlok að lána Íslendingum 308 milljónir evra, 51,7 milljarða króna, til að íslenska ríkið gæti greitt sinn hluta, allt að 20.887 evrur, til þeirra 30 þúsund manna sem áttu innstæður á Kaupþing-Edge-reikningum þar í landi. Hollensk stjórnvöld höfðu þá þegar ákveðið að lána Íslandi allt að 1,3 milljarða evra, 218,4 milljarða króna, til að mæta sömu skuldbindingum gagnvart hollenskum sparifjáreigendum sem áttu fé hjá Icesave. Þá er lánið sem bresk stjórnvöld munu veita okkur af sömu ástæðu um 2,3 milljarðar punda, um 425 milljarðar króna. Því þurfa íslenskir skattgreiðendur, ríkissjóður, að gangast í ábyrgð fyrir um 695 milljarða króna láni til tryggingasjóðs innstæðueigenda. Eignir sjóðsins eru um nítján milljarðar króna sem stendur.

Íslenska ríkið hefur enn ekki gengið frá samningum við ríkin þrjú vegna ofangreindra lánveitinga þó að heildarupphæðir lánanna liggi fyrir. Ástæða þess er sú að sameiginleg samninganefnd landanna þriggja hefur sett fram kröfur um lánstíma, vaxtakjör, greiðsluskilmála og endurskoðunarákvæði sem íslensku fulltrúarnir geta ekki sætt sig við. Sú togstreita sem er í þeim samningaviðræðum sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar þessar lántökur geta haft fyrir íslenskan þjóðarhag.

Ríkissjóður borgar veðlánin

Kröfur Seðlabankans á fjármálafyrirtæki voru á mánudag framseldar til íslenska ríkisins. Þessar kröfur, svokallaðar veðlánsskuldir, eru upp á 345 milljarða króna. Heimildir Morgunblaðsins herma að um 45 milljarðar af þessum kröfum séu á smærri fjármálafyrirtæki en afgangurinn á þrotabú gömlu bankanna þriggja. Þær kröfur eru líklega verðlausar.

Ríkið „keypti“ þessar kröfur af Seðlabankanum með skuldabréfi upp á 270 milljarða króna. Mismunurinn, 75 milljarðar króna, er tap sem Seðlabankinn tekur á sig sem niðurfærslu á eigin fé hans. Það var um 90 milljarðar króna í lok nóvember. Heimildir Morgunblaðsins herma að Seðlabankinn komist af með svona lítið eigið fé vegna þess að íslenska bankakerfið hefur minnkað svo gríðarlega á undanförnum mánuðum. Sömu heimildir segja að tap vegna yfirtöku ríkisins á þessum veðlánum verði skráð sem 220 milljarðar króna í ríkisreikningi fyrir árið 2008. Því reiknar ríkið með því að tapa 220 milljörðum króna af skattfé almennings á þessum lánum til fjármálafyrirtækja og fá um 50 milljarða króna upp í kröfurnar.

Töpum líka vegna skortsölu

Við fall bankanna þriggja gátu fimm aðalmiðlarar ekki skilað inn ríkisbréfum sem þeir höfðu tímabundið fengið að láni hjá ríkissjóði. Þessir viðskiptahættir, að lána ríkisverðbréf gegn framlagningu tryggingabréfa fyrir hluta af upphæðinni sem fengin var að láni, er svokölluð skortsala. Í lánamálum ríkisins segir að „tilgangurinn með þessum lánasamningum var að stuðla að virkari verðmyndun með ríkisbréf á eftirmarkaði“. Áætlað tap ríkisins vegna þessarar skortsölu á ríkisverðbréfum er um 35 milljarðar króna.

154 milljarða króna halli 2009

Samkvæmt fjárlögum ársins 2009, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir jól, mun verða 154 milljarða króna halli á árinu. Það þýðir að útgjöld ríkisins verða 154 milljörðum króna meiri en þær tekjur sem ríkið mun hafa. Þegar upphaflegt fjárlagafrumvarp var kynnt 1. október átti hallinn að verða 60 milljarðar króna. Fall bankanna stækkaði það gat mikið.

Í 5. grein fjárlaganna er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að taka lán sem er allt að 160 milljörðum króna og ráðstafa því í samræmi við ákvæði fjárlaganna. Auk þess er Landsvirkjun veitt heimild til að taka lán allt að 20 milljörðum króna, íbúðalánadeild Íbúðalánasjóðs má taka lán allt að 130 milljörðum króna og Byggðastofnun fær heimild til þriggja milljarða króna lántöku. Auk þess mun ríkissjóður ábyrgjast lán E-Farice ehf. upp á fimm milljarða króna vegna lagningar Danice-sæstrengsins að undangengnum samningum við félagið um fjármögnun verkefnisins.

Endurfjármögnun bankanna

Samkvæmt bráðabirgðaefnahagsreikningi nýju bankanna mun íslenska ríkið leggja þeim til samtals 385 milljarða króna í eigið fé. Það er sama upphæð og þau veðlán sem Seðlabankinn átti með öruggum veðum. Veð fyrir þessum lánum voru íbúðabréf, ríkisbréf og önnur sérvarin skuldabréf.

Endurfjármögnun bankanna gæti þó hæglega kostað meira en þessa 385 milljarða króna. Mat á eignum og skuldum þeirra liggur enn ekki fyrir og Fjármálaeftirlitið (FME) frestaði því síðast á föstudag að birta það mat. Ef bönkunum gengur illa að innheimta viðskiptakröfur sínar, hvort sem er á fyrirtæki eða heimili, er ljóst að endurfjármögnunarþörf þeirra á eftir að verða meiri en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.

Virði FIH óljóst

Að lokum er alls óljóst hvað verður um FIH Erhversvbank sem Seðlabankinn fékk sem veð fyrir 500 milljóna evra, 83,6 milljarða króna, láni til Kaupþings í október síðastliðnum. Þegar Kaupþing féll nokkrum dögum síðar eignaðist Seðlabankinn því þennan danska banka. FIH hefur verið í sölumeðferð í nokkra mánuði en engin kaupandi fundist. Bankinn hefur tvívegis breytt afkomuáætlun sinni fyrir síðasta ár og hagnaðarvon eftir skatta verið færð mikið niður.

Danskir fjölmiðlar sögðu í nóvember að mögulegt kaupverð yrði í mesta lagi um 60 milljarðar króna. Ef miðað er við þær tölur mun Seðlabankinn tapa að minnsta kosti 22,5 milljörðum króna vegna þessa. Þar sem enn hefur ekki tekist að selja FIH er líklegt að verðmiðinn á honum hafi lækkað enn frekar og tap Seðlabankans í takt við það.

Alþjóðagjaldeyrissjóður og vinalönd lána líka
Ísland stefnir að því að taka alls 5,1 milljarðs dala lán til að efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands eða til að styrkja viðskipti á innlendum fjármálamarkaði með útgáfu ríkisverðbréfa.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) ætlar sjálfur að lána Íslendingum 2,1 milljarð dala, 265 milljarða króna, til þessara verka. Fyrsti hluti þess láns, 827 milljónir dala, barst Seðlabankanum í nóvemberlok en sá hluti er enn ónotaður. Afgangurinn af láninu verður greiddur í átta jöfnum áföngum, um 155 milljónir dala í hvert sinn, á þriggja mánaða fresti.

Danir, Svíar, Norðmenn, Finnar, Færeyingar, Pólverjar og Rússar ætla auk þess að lána okkur samtals þrjá milljarða dala, 378,6 milljarða króna. Samtals mun íslenska þjóðin því taka lán upp á 643,6 milljarða króna til að baktryggja krónuna eða til útgáfu ríkisverðbréfa. Alls óljóst er þó hvort og þá hversu miklu af þessu fé þarf að eyða.

Ef allt gengur upp væri hægt að endurgreiða það án mikils kostnaðar fyrir skattgreiðendur. Í fjárlögum ársins 2009 er fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, veitt heimild til að endurlána Seðlabanka Íslands þessi lán. Því munu lán frá IMF og ofangreindum þjóðum ekki teljast til erlendra skulda ríkissjóðs heldur munu þau tilheyra efnahagsreikningi Seðlabankans. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert