Á fjórða hundrað konur bíða nú eftir aðgerð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði vegna þvag- og hægðaleka, blöðrusigs og annarra siga í grindarbotni sem eru oftast afleiðingar eftir fæðingar. Biðtíminn er frá nokkrum mánuðum upp undir eitt ár.
„Fyrir um 20 árum þorði enginn að segja frá því að hann væri með þvagleka. Þetta var dulið vandamál og flókið og kom aldrei upp á yfirborðið. Margir læknar vissu heldur ekki að hægt væri að lækna þetta. Nú fjölgar þeim sem koma vegna vandans. Mér finnst eins og það sé vaxandi þekking á þessu vandamáli þótt fólk beri það ekki endilega mikið á torg,“ segir Gunnar Herbertsson kvensjúkdómalæknir og yfirlæknir á handlækningadeild St. Jósefsspítala.
Í Bandaríkjunum er talið að 60 til 70 prósent kvenna á aldrinum 25 til 65 ára geti verið með einhver vandamál í grindarbotni, að því er Gunnar greinir frá.
„Það kemur bara viss fjöldi þeirra til skoðunar og meðferðar. Margar vita ekki af því að hægt er að fá hjálp,“ tekur Gunnar fram.