Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að ganga til samninga um tilraunaverkefni sem varðar ferðaþjónustu fyrir fatlaða á Norðurlöndunum. Verkefnið, sem er til tveggja ára, er leitt af samtökum hreyfihamlaðra á Norðurlöndum, Nordisk Handikap Forbund, sem Sjálfsbjörg Landssamband fatlaðra á Íslandi á aðild að. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.
Tilgangur verkefnisins er að gera hreyfihömluðum, sem búa í Kaupmannahöfn, Reykjavík, Ósló og Stokkhólmi, kleift að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra í hinum borgunum, að því er segir í tilkynningu.
Verkefnið nær til þeirra sem þurfa sérútbúinn bíl til að komast leiðar sinnar. Reykvíkingar sem eru bundnir hjólastól á ferðum sínum og dvelja í einhverri þátttökuborganna geta nú pantað ferðaþjónustu fatlaðra á sama hátt og notendur sem búsettir eru í borginni sem ferðast er til. Eins geta íbúar hinna borganna komið til Reykjavíkur og pantað ferðir hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík. Þjónustumiðstöðvar í hverfum borgarinnar veita Reykvíkingum sem vilja nýta sér þjónustuna allar upplýsingar, taka við umsóknum og senda upplýsingar áfram til þeirra borgar sem notandi ferðast til, samkvæmt tilkynningu.