Flugmaður, sem sótti um starf þyrluflugmanns hjá Landhelgisgæslunni á síðasta ári en fékk ekki starfið, hyggst höfða skaðabótamál á hendur Gæslunni. Vísbendingar eru um að óeðlilega hafi verið staðið að ráðningu þyrluflugmanna fyrir um ári. Þetta kom fram í Kastljósinu í kvöld.
Fram kom að stúlka, sem fékk starfið, hafi fengið vilyrði fyrir stöðunni nokkrum árum áður en hún fór í flugmannsnám.
Þá kom fram að sérstök valnefnd, sem átti að meta umsækjendur, hafi einnig verið vanhæf sökum tengsla við þá umsækjendur sem fengu stöður.
Umrædd stúlka er fósturdóttir yfirflugstjóra Gæslunnar. Í Kastljósinu var vitnað í bloggfærslur stúlkunnar frá árinu 2005 þar sem hún greinir frá því að það væri búið að ganga frá því að hún fengi vinnu hjá Gæslunni árið 2008 og að ákveðið hafi verið að hún færi í tveggja ára þyrlunám til Flórída. Þetta er tveimur árum áður en staðan var auglýst.