Stjórn gamla Glitnis samþykkti án athugasemda kröfu Bjarna Ármannssonar um að bankinn keypti allt að tveggja prósenta hlut hans í bankanum á 29 krónur, sem var tæplega þremur krónum hærra á hvern hlut en fékkst fyrir bréfin þann dag. Þetta kom fram í aðalmeðferð í dómsmáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Vilhjálmur Bjarnason hluthafi stefndi bankanum og gömlu stjórn hans. Hann krefst 1.900 þúsund króna í skaðabætur, þar sem honum bauðst ekki að kaupa hluti þennan dag á sama gengi. „Það er hans tap á málinu en honum buðust ekki þessi vildarkjör. Hann byggir á því að ekki sé hægt að draga einn hluthafann út, þótt hann sé forstjóri, og bjóða honum svona samninga,“ segir Guðni Haraldsson sem sækir málið fyrir Vilhjálm.