Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi kröfum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um að úrskurða eigi rannsókn ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum ólögmæta.
Í dómnum segir að þegar krafan hafi borist Héraðsdómi voru til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra meint brot Jóns Ásgeirs. Aðalkrafan var að rannsóknin yrði úrskurðuð ólögmæt en til vara að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota, væri skylt að víkja sæti við rannsóknina.
Ríkislögreglustjóri byggði hins vegar á því að rannsókn málsins sé lokið og því verði Jón Ásgeir að bera kröfur sínar undir þann dómara sem fari með málið samkvæmt ákærunni.
Í niðurstöðu Héraðsdóms segir: „Skilyrði þess að ágreiningur verði borinn undir dómara er að viðkomandi mál sé til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Málið sem hér um ræðir var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafan barst dóminum. Þeirri rannsókn er hins vegar lokið [...] og hefur ákæra verið gefin út og falin ákveðnum dómara til meðferðar. Eftir þann tíma verður fjallað um allar kröfur sem varða rannsóknina og hæfi þeirra sem hana önnuðust í tengslum við meðferð málsins samkvæmt ákærunni.“
Máli Kristínar Jóhannesdóttur, systur Jóns Ásgeirs, var vísað frá með sömu rökum. Hún gerði sömu kröfur og Jón Ásgeir en þau eru bæði ákærð vegna meintra skattalagabrota í tengslum við rekstur Baugs.