Læknaráð HAK lýsir ánægju með núverandi rekstrarform

Læknaráð Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri (HAK) lýsir yfir ánægju sinni með núverandi rekstrarform stöðvarinnar og fagnar áframhaldandi samvinnu við Akureyrarbæ. Þá telur það að tillögur heilbrigðisráðherra um að sameina allan sjúkrahúsrekstur og heilsugæslu á Norðurlandi undir hatt geti haft ýmsar hættur í för með sér. Þetta kemur fram í ályktun sem ráðið samþykkti í dag.

„Ráðið telur að það sé forsenda hagkvæms reksturs og hagnýts þróunarstarfs að sveitarfélög yfirtaki rekstur heilsugæslunnar í landinu. Á Akureyri hefur þessi skipan mála gert það kleift að samtvinna úrræði og hefur stuðlað að fjölmörgum jákvæðum breytingum og nýjum verkefnum innan heilsugæslustöðvarinnar og utan. Stuðningur sveitarstjórna og samvinna heilsugæslufólks, félagsþjónustunnar, skólakerfisins og ýmissa félagssamtaka í héraði er forsenda árangursríkrar heilsueflingar í landinu,“ segir í ályktuninni.

„Jafnframt lýsir læknaráð yfir ánægju með farsæla samvinnu HAK og FSA á liðnum árum, sem hefur verið á jafnréttisgrundvelli og báðum aðilum að jafnaði til hagsbóta. Það væri hins vegar vanvirðing við uppbyggingar- og þróunarstarf heilsugæslunnar á Íslandi á liðnum árum að fela forsjá hennar sérgreinasjúkrahúsi, þar sem allt önnur hugmyndafræði og verðmætamat er ríkjandi og viðfangsefni og aðferðafræði af allt öðrum toga,“ segir í ályktuninni.

Þá telur læknaráð að tillögur heilbrigðisráðherra um að sameina allan sjúkrahúsrekstur og heilsugæslu á Norðurlandi undir hatt einnar heilbrigðisstofnunar geti haft eftirtaldar hættur í för með sér:
 

  • Þróunarmöguleikum FSA í átt til þess að verða sérgreinasjúkrahús og kennslustofnun, sem stendur undir nafni svo ekki sé minnst á varasjúkrahús fyrir landið, eru skorður settar þar sem kröftum verður dreift, jafnvel þótt reynt verði að soga til sín það fjármagn, sem sparast gæti við að draga úr heilbrigðisþjónustu við jaðarbyggðir.
  • Hætt er við að lamandi hönd muni leggjast á frumkvæði, nýsköpun og metnaðarfull vinnubrögð starfsfólks heilsugæslunnar þegar forsjá þess er falin stjórnendum sérgreinasjúkrahúss. Frumkvæði og metnaður fagfólks í grunnþjónustu felst gjarnan í því að gera vel í sínu nánasta umhverfi svo árangurinn sé sýnilegur þeim íbúum sem verið er að þjóna.
  • Girt verður fyrir möguleika minni stofnana á jaðarsvæðum til að skapa sérhæfðu starfsfólki áhugaverðar vinnuaðstæður og launakjör, þar sem stjórnendur hins fjársvelta sjúkrahúss munu  neyðast til að halda áfram lífróðri sínum til að halda hinum fjárfreka rekstri á floti. Afleiðingin verður niðurskurður, lokanir stofnana og uppsagnir starfsfólks á strjálbýlli svæðum.
  • Umfangsmikil sameining stofnana getur haft verulegan aukakostnað í för með sér í byrjun og er því ekki vænleg sparnaðarleið í bráð.   Árangur sameiningartilrauna verður því betri, sem starfsmenn sjálfir eru áhugasamari og fúsari.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka