Læknaráð Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri (HAK) lýsir yfir ánægju sinni með núverandi rekstrarform stöðvarinnar og fagnar áframhaldandi samvinnu við Akureyrarbæ. Þá telur það að tillögur heilbrigðisráðherra um að sameina allan sjúkrahúsrekstur og heilsugæslu á Norðurlandi undir hatt geti haft ýmsar hættur í för með sér. Þetta kemur fram í ályktun sem ráðið samþykkti í dag.
„Ráðið telur að það sé forsenda hagkvæms reksturs og hagnýts þróunarstarfs að sveitarfélög yfirtaki rekstur heilsugæslunnar í landinu. Á Akureyri hefur þessi skipan mála gert það kleift að samtvinna úrræði og hefur stuðlað að fjölmörgum jákvæðum breytingum og nýjum verkefnum innan heilsugæslustöðvarinnar og utan. Stuðningur sveitarstjórna og samvinna heilsugæslufólks, félagsþjónustunnar, skólakerfisins og ýmissa félagssamtaka í héraði er forsenda árangursríkrar heilsueflingar í landinu,“ segir í ályktuninni.
„Jafnframt lýsir læknaráð yfir ánægju með farsæla samvinnu HAK og FSA á liðnum árum, sem hefur verið á jafnréttisgrundvelli og báðum aðilum að jafnaði til hagsbóta. Það væri hins vegar vanvirðing við uppbyggingar- og þróunarstarf heilsugæslunnar á Íslandi á liðnum árum að fela forsjá hennar sérgreinasjúkrahúsi, þar sem allt önnur hugmyndafræði og verðmætamat er ríkjandi og viðfangsefni og aðferðafræði af allt öðrum toga,“ segir í ályktuninni.
Þá telur læknaráð að tillögur heilbrigðisráðherra um að sameina allan sjúkrahúsrekstur og heilsugæslu á Norðurlandi undir hatt einnar heilbrigðisstofnunar geti haft eftirtaldar hættur í för með sér: