Óumflúið að Gæslan segi upp

Þyrla Gæslunnar, TF-Líf
Þyrla Gæslunnar, TF-Líf Landhelgisgæslan

„Markmið okkar er að reyna að vernda þá starfsemi sem kemur beint að björgun mannslífa og okkar aðgerðir miða að því að það verði sem allra minnst skerðing á þeirri starfsemi,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Fundað var með trúnaðarmönnum í dag um fyrirhugaðar hópuppsagnir.

„Málin standa þannig að rekstur Landhelgisgæslunnar hefur verið mjög erfiður frá því um mitt síðasta ár og það svo mjög að við þurftum að draga stigmagnandi úr öllum okkar umsvifum eftir því sem leið á árið og vorum nánast komin í stopp um áramót,“ segir Georg. Uppsagnirnar nú eru því skref sem ekki verður umflúið.  „Það liggur í hlutarins eðli að það verður einhver skerðing á björgunargetu Landhelgisgæslunnar, en allt sem við erum að gera núna miðar að því að það verði sem allra minnst.“

Áframhaldandi samráðsferli verður með trúnaðarmönnum næstu vikuna að sögn Georgs.  Nákvæmur fjöldi þeirra sem á endanum þarf að segja upp liggur ekki fyrir, en talið er að það verði á bilinu 20-30 manns þótt það geti breyst þar sem unnið er að því að finna aðrar leiðir og hefur starfsfólki verið boðið launalaust leyfi, skert starfshlutfall, töku lífeyris o.s.frv. Georg segir þó ljóst að ef af verði muni uppsagnirnar snerta allar deildir innan Gæslunnar.

„Það er svo heppilegt að við erum með mjög fjölbreyttan starfsmannahóp og vel þjálfaða sérfræðinga svo það eru allnokkrir sem eiga völ á starfi í útlöndum,“ segir Georg og bætir við að nokkrir séu þegar farnir.  „Við erum að reyna hvað við getum til að aðstoða fólk við að fá vinnu annars staðar. Það er auðvitað slæmt að missa fólk til vinnu í útlöndum, en það er samt þó skömminni skárra að fólk fái þó vinnu í útlöndum, í þeirri von að það komi þá aftur, sem við vonum að það geri.“

Ljóst er að dregið verður úr öllum aðgerðum Landhelgisgæslunnar næstu misserin og þeim haldið í lágmarki. Georg segir að varðskipin tvö verði þó bæði gerð út en úthaldið verði minna en áætlað var og flugtímar verði að sama skapi takmarkaðir við nauðsynlega lágmarksþjálfun áhafnar. „Verðmæti Landhelgisgæslunnar liggja í starfsfólkinu, það er það sem skiptir máli. Við höfum á að skipa þrautþjálfuðu úrvalsfólki á öllum stöðum og það er verðmætustu eignirnar sem þjóðin getur reitt sig á hjá Landhelgisgæslunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert