Sveitarfélögin í landinu skulda yfir 130 milljarða króna. Þá eru ótaldar lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar utan efnahags sem gætu numið allt að 100 milljörðum króna. Þetta má meðal annars lesa í 1. tölublaði fréttabréfs hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi á síðustu mánuðum hefur Samband íslenskra sveitarfélaga ákveðið að efla söfnun upplýsinga um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna og verður þeim nú safnað mánaðarlega.
Verkefnið er unnið í samvinnu við samgönguráðuneytið og Hagstofu Íslands. Mánaðarlega verður sent út form sem sveitarfélögin eru beðin um að fylla út. Þar er óskað eftir upplýsingum um helstu atriðin sem varða tekjur og gjöld, fjármagnskostnað, fjárfestingar og skuldastöðu. Leitast er við að afla sem mestra upplýsinga með lágmarksfyrirhöfn. Niðurstöður úr þessari upplýsingasöfnun verða gefnar út í sérstöku fréttabréfi jafnóðum og þær liggja fyrir.
Skjalið var sent til allra sveitarfélaga um miðjan nóvember í fyrra og bárust svör frá 39 sveitarfélögum sem hafa um 82% landsmanna.
Í fyrsta fréttabréfinu birtast upplýsingar sem byggja á niðurstöðum frá fyrstu 10 mánuðum síðasta árs.
Afkoman verst þar sem þenslan var mest
Rekstrarleg afkoma sveitarfélaganna er lökust á þeim svæðum þar sem þenslan var mest. Reykjavíkurborg er með framlegð upp á 2,5 milljarða króna sem er 4,1% af tekjum. Höfuðborgarsvæðið án Reykjavíkur er með neikvæða framlegð upp á 1,5 milljarða króna eða -3,9% af tekjum. Vaxtarsvæði eru með neikvæða framlegð upp á tæpar 600 milljónir króna eða -1,4% af tekjum. Að lokum eru önnur sveitarfélög með framlegð upp á 2,5 milljarða króna eða 8,7% af tekjum. Samtals er áætlað að sveitarfélögin séu með um 3 milljarða króna í framlegð sem er 1,8% af tekjum.
Framkvæmt fyrir lánsfé
Fjárfesting er langmest hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur eða rúmir 16 milljarðar króna. Síðan kemur Reykjavík með 8,7 milljarða og vaxtarsvæði með 8,6 milljarða. Fjárfesting er síðan mun minni hjá öðrum sveitarfélögum eða 3,8 milljarðar króna. Áætlað er að brúttófjárfesting nemi um 37,5 milljörðum króna á árinu 2008. Tekjur af gatnagerðargjöldum og söluverði varanlegra rekstrarfjármuna eru metnar á rúma 3 milljarða þannig að stærstur hluti þessara framkvæmda er fjármagnaður með lánsfé.
Skulda hátt á annað hundrað milljarða
Heildarskuldir sveitarfélaganna eru áætlaðar um 131 milljarður króna. Þar af eru skammtímaskuldir um 42 milljarðar og langtímaskuldir um 89 milljarðar. Í samantektinni segir að það sé háð ýmsum óvissuþáttum að áætla heildarskuldir sveitarfélaganna út frá fyrirliggjandi upplýsingum svo að um ákveðna nálgun er að ræða. Þá segir að þróun gengismála hafi tekið verulegum breytingum frá einum mánuði til annars. Áhrif verðbólgunnar séu einnig töluverð á þróun verðtryggðra lána þannig að um nálgun sé að ræða en ekki handfastar niðurstöður.
Lífeyrisskuldbindingar eru ekki reiknaðar með í þessari samantekt. Þær eru reiknaðar út í tengslum við frágang ársreiknings og eru því einungis uppfærðar einu sinni á ári. Í árslok 2007 voru þær um 43 milljarðar króna, miðað við verðlag í nóvember 2008. Þá eru ekki taldar með skuldbindingar utan efnahags en þær koma meðal annars til með þeim
hætti að sveitarfélag hefur selt eignir sínar og endurleigt þær eða falið einkaaðila að kosta fjárfestingu sem sveitarfélagið leigir síðan til langs tíma. Upplýsingar um þessar skuldbindingar eru ekki í efnahagsreikningi sveitarfélaganna heldur er þeirra getið í skýringum samkvæmt ákveðinni forskrift. Í árslok 2007 voru skuldbindingar utan efnahags um 45 milljarðar króna, miðað við verðlag í nóvember 2008.