Almannavarnanefnd Vestmannaeyja hefur óskað eftir upplýsingum frá Siglingastofnun um um ástand og öryggi farþegaferjunnar Herjólfs. Er tilefni fyrirspurnarinnar, að tíðar bilanir hafa orðið á vélum skipsins á undanförnum vikum.
Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri og formaður nefndarinnar, sendi Siglingastofnun bréf um málið. Þar er óskað eftir að stofnunin gefi nefndinni ítarleg svör við því hvort ástand véla eða þær bilanir sem hafa orðið á þeim svo og þær skemmdir sem muni hafa orðið á veltiugga þess valdi skertu öryggi fyrir farþega um borð í skipinu.
Bæjarráð Vestmannaeyja fjallaði um bréfið í vikunni og kemur fram í Fréttum í Vestmanneyjum að ráðið fagni eftirgrennslan almannavarnarnefndar.
Fram kemur í fréttum, að smíði á nýjum veltiugga taki marga mánuði hjá framleiðanda. Haft er eftir Guðmundi Pedersen hjá Eimskip, sem rekur Herjólf, að ekkert nýtt væri í stöðunni og ugginn kæmi væntanlega um mitt ár. Hann sagði vélar í skipinu teknar upp reglulega eins og lög gera ráð fyrir.
„Þetta er orðið slitið og það geta komið upp óvænt atvik eins og þegar stimplar gefa sig fyrr en áætlað er og það er þá eins og hvert annað óphapp. Vélar í farþegaskipum eru yfirfarnar reglulega, rétt eins og í flugvélum en það getur alltaf komið upp bilun í vélbúnaði þrátt fyrir það," segir Guðmundur við Fréttir.