Allt virðist benda til þess að fólk í giftingarhugleiðingum hyggist hafa giftingarathafnir sínar og veislur látlausari en áður þótti sjálfsagt. Þetta er mat þeirra presta sem Morgunblaðið ræddi við í gær. Segja þeir ívíð færri bókanir vegna brúðkaupa fyrir komandi sumar en á sama tíma í fyrra.
Aðspurðir sögðust þeir ekki telja að giftingar yrðu færri í heild sinni á árinu, en þær yrðu sennilega látlausari og sökum þess bókaðar með styttri fyrirvara. Hjá sýslumanninum annars vegar í Reykjavík og hins vegar í Kópavogi fengust þær upplýsingar að ekki sæist merkjanlegur munur á fjölda borgaralegra athafna síðastliðna fjóra mánuði samanborið við sama tíma í fyrra.
„Mér finnst ég skynja að fólk hyggist gera minna úr öllu umstanginu og umgjörðinni. Og ég sakna þess ekkert. Þetta þýðir að það verður meira innihald og minni umbúðir,“ segir Hjálmar Jónsson, prestur í Dómkirkjunni. Segir hann að þótt gaman sé að bjóða vinum til fjölmennrar giftingarveislu þá séu það vígsluheit brúðhjónanna og blessun þeirra í kirkjunni sem sé aðalatriðið.
„Bókanir hafa ekki farið eins hratt af stað fyrir sumarið,“ segir Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni, og tekur fram að þær séu nú um 10-15 færri en á sama tíma í fyrra. Segist hann heyra það á fólki að það sé að endurskoða umgjörð giftinga og vilji sýna fyrirhyggju með því að sníða sér stakk eftir vexti vegna fjármálakreppunnar.