Norskir bílasalar, Trond Sandven og Jarle Jetmundsen, eiga aðeins eftir að ganga frá formsatriðum vegna kaupa á nærri 100 nýlegum bifreiðum hér á landi. Þeir leita nú að eðalvögnum sem þeir ætla að flytja út og selja á Norðurlöndunum. Þetta er önnur ferð bílasalanna til landsins og hafa þeir samtals fest kaup á um 200 bifreiðum. „Við hyggjumst jafnvel kaupa nokkur hundruð bíla til viðbótar,“ segir Sandven. Hann segir þá félaga hafa selt bifreiðarnar úr fyrri ferðinni hratt og örugglega.
Þeir hafa fest sér bíla hjá Toyota og Heklu, en einnig hjá öðrum umboðum, en forstjórar stóru bifreiðaumboðanna segja þá enn eftir að ganga frá sölunni.
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, segir Norðmennina í prúttpælingum. „Það er engin brunaútsala hjá okkur. Við ætlum að selja bílana á eðlilegu verði. Ef það er ekki nóg fyrir þá fá þeir ekki bílana.“ Knútur G. Hauksson, forstjóri Heklu, segir ekki slegið af umfram það sem gerist á markaðinum í dag. Knútur segir marga erlenda aðila hafa sóst eftir að kaupa bifreiðir hér á landi fyrst eftir eftir fall bankanna. „Þá gáfu stjórnvöld út að þau ætluðu að endurgreiða hluta af vörugjaldinu. Menn biðu eftir því en gríðarlega langan tíma tók að ganga frá því einfalda máli. Á meðan styrktist krónan og þessir menn duttu úr skaftinu.“
Norðmennirnir telja nú bestu kaupin í lúxusbifreiðum í bílskúrum landsmanna og benda seljendum á að hafa samband við sig í gegnum netfangið trond@sandven.com.