„Reynsla mín er sú að það sé mjög mikið á því að græða að fá konur í ábyrgðarstöður,“ sagði Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, á Jafnréttisþingi í dag. Þar fjallaði hann um ávinning af jafnrétti í fyrirtækjum og leiðir og aðferðir í þeim efnum. Hann gerði grein fyrir atriðum sem flestir eru sammála um að prýði fyrirmyndar fyrirtæki, stofnanir og starfseiningar. Eitt þeirra er að jafnrétti ríki á milli karla og kvenna.
Þórólfur gerði grein fyrir þeirri ábyrgð stjórnandans að fara vel með og nýta þær auðlindir sem honum er trúað fyrir. Hann sagði mannauðinn þar fyrstan og fremstan. Nýta eigi fjölbreytta reynslu, menntun, hæfileika og tengslanet starfsfólksins til tekjusköpunar og álitsauka fyrir starfsemina. Hann gerði grein fyrir reynslu sinni sem stjórnandi í Tali, Reykjavíkurborg og Skýrr þar sem konur voru í hlutfallslega mörgum ábyrgðarstöðum. Reynslan af þessu hafi verið mjög góð. T.d. hjá Skýrr sé þriðjungur starfsfólks konur og sagði Þórólfur svo hátt hlutfall kvenna fátítt hjá fyrirtækjum í upplýsingatækni. Hann kvaðst hafa ákveðið að þar yrði kynjaskipting í æðstu stjórn eins jöfn og mögulegt væri. Nálægt helmingur hópstjóra er nú kvenkyns, konur stýra þremur af fimm tekjusviðum og af 11 í framkvæmdastjórn eru fimm konur.
Dæmi er um að kona hafi afþakkað stöðuhækkanir hjá Skýrr vegna þess að hún óttaðist að styggja með því karlkyns vinnufélaga og missa hann úr starfi. Þórólfur kvaðst hafa svarað því til að ef karlinn myndi fara af þessari ástæðu, þá vildi hann ekki hafa þann mann í vinnu. „Við höfum tekið stefnumótandi ákvörðun - þetta gerist ekki af sjálfu sér,“ sagði Þórólfur. Hann sagði jafnréttisstefnuna hafa leitt margt gott af sér hjá fyrirtækinu.
Þórólfur benti á að nú væru breytingatímar hér á landi. Hann hvatti til þess að tækifærin væru notuð til að auka hlut kvenna og konur ættu að grípa þau tækifæri sem þeim byðust. Þórólfur benti á að konur ættu að hvetja aðrar konur til dáða og treysta dómgreind þeirra sem vildu ráða konur til starfa. Hann benti á að flestir mannauðsstjórar fyrirtækja væru konur og meirihluti starfsfólks á ráðningarskrifstofum einnig. Samt skorti enn á að þær treystu konum sem sæktu um störf.
Þórólfur sagði að stöðuhækkanir kvenna muni draga úr kynbundnum launamun. Launamunur tengist einnig starfsaldri, reynslu og menntun en konur séu að sækja fram á öllum þeim sviðum.