„Ákvörðunin er vonbrigði í ljósi þess að hér er verið að beygja frá markvissum og metnaðarfullum aðgerðum stjórnvalda frá árinu 2007 um uppbyggingu þorskstofnsins,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, um 30 þúsund tonna aukningu þorskkvótans.
Jóhann segir að mat Hafró liggi fyrir en í ráðgjöf vísindamanna stofnunarinnar á síðasta ári, var talið æskilegt að miða við 130 þúsund tonn og ekki meira. Það hafi verið gert af fiskverndarlegum ástæðum.
Þá segir hann að breyting á aflareglunni árið 2007 hafi verið mjög mikilvægt skref. Þar með hafi metnaðarfull uppbyggingaráætlun verið samþykkt.
„Það fannst okkur vera mjög mikilvæg ákvörðun vegna þess að margir hafa kvartað yfir því og gert sér grein fyrir því að það sé eftirsóknarvert að ná meiri afrakstri út úr þorskstofninum og menn tengdu afraksturinn fyrst og fremst við lélegan hrygningarstofn, bæði lítinn hrygningarstofn og vöntun á stórum fiski í hrygningarstofninn. Eina markvissa aðgerðin til þess að koma sér út úr þessu fari var að draga úr afla eins og ákveðið var árið 2007 með þessari breytingu á aflareglunni þá. En ég held að það sé ekki hægt að segja annað en að það séu ákveðin vonbrigði að þarna sé brugðið frá þessari reglu,“ segir forstjóri Hafró.
Jóhann segir í sjálfu sér ekki líkur á því að aukning aflamarksins um 30 þúsund tonn ógni þorskstofninum og Hafró sé ekki að taka afstöðu til þess hvort um nauðsynlega ráðstöfun er að ræða af efnahagslegum ástæðum. Allir geri sér grein fyrir ástandi efnahags- og atvinnumála en Hafró meti ekki hvort nauðsynlegt sé að auka aflamarkið af þeim ástæðum.
„Ef það gengur eftir sem lesa má úr tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins, að þessari aukningu fylgi viðlíka aukning á næsta ári, þá náttúrulega stefnir þetta uppbyggingarstarfinu í algjöra óvissu. Og það eru vaxandi líkur á að það langtímamarkmið að stækka hrygningarstofninn, sem ég held að allir hafi verið sammála um, hreinlega náist ekki. Það eru mikil vonbrigði. Tíðar breytingar á aflalreglunni í þorski, sem hafa óneitanlega verið á undanförnum árum, færa okkur augljóslega frá markmiðinu um uppbyggingu stofnsins og þeim markmiðum að veita atvinnugreininni meiri stöðugleika,“ segir Jóhann Sigurjónsson.