Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins, er hættur. Hann segist ætla að láta gamlan draum rætast og stofna eigið fjölmiðlafyrirtæki.
Björn Ingi segir á bloggsíðu sinni að fjölmiðlamenn fari ekki varhluta af því ástandi sem ríkir. Sama megi segja um fjölmiðlaumhverfið en flest ef ekki öll fyrirtæki sem standa að útgáfu hér á landi eigi í rekstrarerfiðleikum.
„Fréttablaðið hefur ekki farið varhluta af þessu, ekki heldur Markaðurinn, viðskiptablað þess. Á undanförnum mánuðum hefur því miður þurft að rifa seglin þar á öllum sviðum, með fækkun starfsfólks, minna blaði og nú síðast fækkun útgáfudaga. Slíkar ráðstafanir eru auðvitað skiljanlegar í árferði sem þessu og í framhaldi af því varð niðurstaða milli mín og stjórnenda blaðsins í dag um að ég láti af störfum sem viðskiptaritstjóri á Fréttablaðinu. Þakka ég samstarfsfólki mínu á Markaðnum og Fréttablaðinu einstaklega áhugaverð kynni á undanförnum mánuðum,“ segir Björn Ingi Hrafnsson á bloggsíðu sinni.
Hann segist verða áfram með þátt sinn Markaðinn með Birni Inga á Stöð 2. Þá segist hann ætla að láta verða af gömlum draumi sem hann hafi lengi gengið með í maganum, en það er að stofna eigin fjölmiðil með fréttum, skoðunum og fréttaskýringum á Netinu.
„Vonast ég til þess að hann komist í gagnið á næstu vikum, enda nóg um að fjalla í þjóðfélaginu þessa dagana,“ segir Björn Ingi í bloggsíðu sinni.