Fréttaskýring: Brostnar væntingar í Landhelgisgæslunni

Varðskip Landhelgisgæslunnar á siglingu í hafís.
Varðskip Landhelgisgæslunnar á siglingu í hafís.

Íslendingar þekkja vel af eigin raun hve litlu getur oft munað í baráttunni við óblíð náttúruöfl. Því fer um marga þegar fregnir heyrast af samdrætti og meiri samdrætti hjá Landhelgisgæslunni. Greint hefur verið frá því að fyrirhugað sé að segja upp 20-30 manns af þeim 160 sem þar starfa og því ljóst að breytingar á rekstrinum eru óhjákvæmilegar í framhaldinu.

„Það liggur í hlutarins eðli að það verður skerðing á björgunargetu Landhelgisgæslunnar, en markmið okkar er að vernda þá starfsemi sem kemur beint að björgun mannslífa,“ segir Georg Lárusson, forstjóri LHG. „Við erum til taks,“ segja kjörorð Gæslunnar og hingað til hafa landsmenn reitt sig á hana sem eftirlits- og öryggisstofnun en spyrja sig nú margir hvort áfram sé mögulegt að standa undir gæðamerkjum starfsins þegar efnahagsástandið bitnar svo illa á rekstrinum.

Framtíðarsýnin sett á ís

Strax í haust dró töluvert úr umsvifum Gæslunnar vegna aukins kostnaðar í kjölfar gengishruns. M.a. hafa varðskipin Ægir og Týr legið í auknum mæli við bryggju það sem af er vetri vegna óhagstæðs eldsneytisverðs, en alls nam aukakostnaður vegna hækkana á olíu um 120-130 milljónum á síðasta ári. Að sögn Georgs stendur ekki til að leggja öðru hvoru skipinu alfarið, bæði verða þau gerð út en þó mun minna en áættlað var.
Sama gildir um þyrlurnar þrjár og flugvélina Sýn. Frá hausti hafa flugtímar Gæslunnar miðast við það eitt að viðhalda lágmarksþjálfun flugmanna svo áhafnir haldi réttindum sínum og verður þeirri stefnu haldið áfram m.v. rekstraráætlun ársins 2009. Samkvæmt fjárlögum er LHG úthlutað um 2,7 milljörðum króna, sem er ögn meira en í fyrra.

Það er því miður útséð um að þær glæstu fyrirætlanir um byltingu í Landhelgisgæslunni sem kynntar voru síðastliðið vor verði að veruleika á næstunni. Þar var m.a. stefnt að því að viðbragðstími þyrluáhafna yrði styttur úr 30 mínútum í 15 mínútur og að árið 2009 yrðu ávallt tvö varðskip á sjó í einu. Það myndi m.a. auka flugþol þyrlnanna en þýddi jafnframt að fjölga þyrfti í áhöfnum um 33%. Slíkar viðbætur virðast ekki í augsýn nú.

Á hinn bóginn hefur ekki verið horfið frá áætlunum um endurnýjaðan tækjakost LHG, enda var í fyrra skrifað undir bindandi samninga, annars vegar um kaup á sérútbúinni eftirlitsflugvél en hinsvegar um smíði á nýju varðskipi í Chile.

Hvort tveggja er aðkallandi þar sem Týr, Ægir og Sýn eru öll komin vel á aldur. Óvíst er hinsvegar um afhendingartíma þeirra, vonast er til að flugvélin komi til landsins í ár en tafir hafa orðið á skipasmíðinni sem lýkur ekki fyrr en í fyrsta lagi 2010.

Starfsfólkið mestu verðmætin

Þrátt fyrir þetta bakslag segir Georg að áætlun síðasta árs sé alls ekki fallin úr gildi, en þeim metnaðarfullu markmiðum sem þar voru sett fram verði ekki framfylgt eins og er. Mikilvægast sé að geta haldið hæfu fólki þar til birtir upp. „Verðmæti Landhelgisgæslunnar liggja í starfsfólkinu, það er það sem skiptir máli. Við höfum á að skipa þrautþjálfuðu úrvalsfólki og það er eignirnar sem þjóðin getur reitt sig á.“

Ábyrgð á hafi úti 

Auk öryggisgæslu á hafinu umhverfis landið eru Íslendingar ábyrgir fyrir gríðarstóru leitar- og björgunarsvæði í N-Atlantshafi. Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn aðgerða á þessum alþjóðlegu hafsvæðum, sem alls spanna um 1,8 milljóna km² svæði.

Hlýnun loftslags hefur gert það að verkum að bæði skemmtiferða- og olíuflutningaskip nota í auknum mæli siglingaleiðir við Ísland.

Ábyrgð Gæslunnar ef sjóslys verða er því aukin. Nú þegar eru að jafnaði um 300 íslensk skip í lögsögunni á degi hverjum, en stundum allt upp í 800. Í hinni metnaðarfullu landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008-2010 sem kynnt var í fyrra var markmiðið að auka öryggisgæslu á hafinu þannig að öll skip sem sigla um lögsöguna verði vör við gæslu, en það mun ekki rætast á næstunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert