Grunur um íkveikju við Klapparstíg

Lögreglan segir mikið lán að veður var kyrrt þegar brann að Klapparstíg 17 á fjórða tímanum í nótt. Eldsúlur stóðu marga metra út um gluggann og ef það hefði verið hvasst hefðu nærliggjandi hús verið í mikilli hættu. Níu manns voru i húsinu og gátu naumlega forðað sér.

Húsið sem er þriggja hæða varð alelda á skammri stundu. Níu manns sluppu naumlega út. Þrír voru fluttir á slysadeild vegna gruns um reykeitrun. Slökkvistarf tók rúmar fjórar klukkustundir en rýma þurfti nærliggjandi hús en rúður voru farnar að springa í þeim.

Höskuldur Einarsson varðstjóri hjá Slökkviliðinu segir að menn hafi enga hugmynd um eldsupptök en eldurinn hafi breiðst grunsamlega hratt út. Fólk lýsti því að það hefði vaknað og séð eld fyrir utan gluggann. Það bendir til íkveikju en það er óstaðfest. Lögreglan vildi ekki staðfesta neitt um eldsupptök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert