Ísraelar hafa tilkynnt íslenskum yfirvöldum að menntamálaráðherra landsins sé væntanlegur til Íslands á þriðjudag. Tilgangurinn sé að greina Íslendingum frá hlið Ísraela í stríðsátökunum á Gaza. Utanríkisráðuneytið hefur tjáð Ísraelum að slík heimsókn sé óviðeigandi.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að Ísraelar hafi haft samband við ráðuneytið í morgun. „Þeir tilkynntu okkur það að menntamálaráðherrann væri á leiðinni,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Þetta hafi ekki verið ósk um að fá að koma í heimsókn - líkt og sé venja í diplómatískum samskiptum - heldur hafi ísraelsk stjórnvöld einfaldlega tilkynnt um komu sína.
„Í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa fordæmt þessar árásir og hafa af þeim þungar áhyggjur, og þungar áhyggjur af því hversu margir óbreyttir borgarar hafa látið lífið, var þeim skilaboðum komið á framfæri til ísraelskra stjórnvalda að það sé ekki rétt að hátt settir aðilar fundi fyrr en Ísrael hefur orðið við kröfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna [og hætti árásum sínum á Gaza],“ segir Urður.
Ekki liggur hver viðbrögð Ísraela verða við þessum boðum íslenskra stjórnvalda.
Fjallað er um málið á fréttavef blaðsins Yedioth Ahronoth í dag og þar kemur fram að Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hafi ákveðið að senda ráðherra í leiðangur til Evrópuríkja þar sem almenningsálitið er ekki Ísraelsmönnum í hag. Eiga þeir að leggja af stað eftir ríkisstjórnarfund á sunnudagsmorgun.
Blaðið segir, að ráðherrarnir muni hitta leiðtoga erlendra ríkjanna og koma fram í fjölmiðlum þar. Um er að Meir Sheetrit, innanríkisráðherra, Shaul Mofaz, samgönguráðherra, Isaac Herzog, félagsmálaráðherra, Yuli Tamir, menntamálaráðherra, Daniel Friedmann dómsmálaráðherra og Avi Dichter, sem fer með öryggismál.
Til stóð að Tamir kæmi til Íslands en hann mun einnig fara til Írlands þar sem Ísraelsmenn hafa að undanförnu sætt mikilli gagnrýni af hálfu stjórnvalda og í fjölmiðlum. Í gær sendi 41 írskur þingmaður frá sér yfirlýsingu þar sem hvatt var til þess að vopnahlé verði samið á Gaza án tafar. Var því jafnframt lýst yfir að viðbrögð Ísraelsmanna á Gaza væru allt of hörð.
Fréttavefurinn hefur eftir Sheetrit, sem verður sendur til Belgíu, að hann skilji ekki hvers vegna heimurinn sé á móti aðgerðum Ísraelsmanna á Gasa. „Enginn ætti að kvarta við okkur yfir eyðileggingunni á Gaza, heldur ættu þeir að tala við Hamas. Við hverju búast þeir? Að hús verði reist á stríðstíma?"