„Ég segi við karlana: Axlið ykkar ábyrgð og gerið það til jafns við konur. Í fyrirtækjarekstri, í pólitíkinni og inni á heimilinu á ábyrgðinni að vera jafnt skipt. Við eigum að gera það með stolti og hætta að fara í felur með að við erum ekki allir útrásarvíkingar. Verkefnið framundan er samvinnuverkefni sem krefst þess að reynsla, menntun og starfskraftar beggja kynja nýtist á öllum vígstöðvum,“ sagði Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins á Jafnréttisþingi í dag.
Yfirskrift ávarps Ólafs var: Skipta útrásarvíkingar um bleyjur? Hann hóf mál sitt á að ræða um nýliðna víkingaöld en eftir hana liggja margir útrásarvíkingar í valnum. „Úrásarvíkingarnir voru næstum því allir karlmenn og í þeirra heimi ríkti gjarnan hefðbundin verkaskipting. Karlinn fór út og skaffaði, konan var heima og sá um börn og heimili,“ sagði Ólafur. Hann rifjaði upp hvernig eiginleikum útrásarvíkinga var lýst og hvernig lýsingin féll að hefðbundinni ímynd karlmennskunnar: Áræðni, kjarkur og áhættusækni. Ólafur sagði að áhættusæknin hafi e.t.v. verið ein birtingarmynd sjálfseyðingarhvatarinnar sem hrjáir hluta af karlkyninu. Ökuferð útrásarvíkinganna hafi endað úti í skurði og margir lægju sárir eftir.
Á blómatíma útrásarinnar varð hljóðlát þróun. „Í upphafi aldarinnar tóku ný lög um fæðingarorlof gildi, sem veittu feðrum sama rétt og mæðrum. Staðreyndin er sú að yfir 85% nýbakaðra feðra hafa nýtt sér þennan rétt frá aldamótum. Eytt tíma heima með börnunum sínum og séð um heimilið,“ sagði Ólafur. Samkvæmt vef Tryggingastofnunar fóru um 25.800 karlar í fæðingarorlof á árunum 2001 - 2006. Sé miðað við að álíka margir hafi nýtt sér þennan rétt á árunum 2007 og 2008 og á árunum þar á undan má ætla að um 37.000 feður hafi nýtt sér rétt til fæðingarorlofs. Á árunum 2001 - 2005 nýttu pabbarnir meira en áskylda þrjá mánuði af fæðingarorlofinu. Þegar góðærið var í algleymi árið 2006 styttist sá tími sem feður tóku í fæðingarorlof.
Ólafur taldi að þorri feðra nýti fæðingarorlofið eins og til var ætlast. Axli ábyrgð á heimili og börnum á meðan mamman fari í vinnu eða skóla. Eftir að fæðingarorlofi ljúki taki þeir oftast meiri þátt í barnauppeldi og heimilishaldi en a.m.k. feður þeirra gerðu alla jafna.
„Ég hef stundum á tilfinningunni að margir karlar vilji ekki flagga sínu breytta hlutverki mikið af ótta við að styggja þau 15% sem ekki hafa séð ástæðu til að breyta sínum háttum. Kannski eru fyrirmyndir þeirra einmitt í þeim hópi,“ sagði Ólafur. Hann sagði að í hópi útrásarvíkinga hafi ekki þótt sniðugt að taka fæðingarorlof. Karlar sem störfuðu í árásargjörnustu víkingafyrirtækjunum hafi sagt að þrátt fyrir starfsmannastefnu sem kvað á um jafnrétti hafi það augljóslega verið litið hornauga að menn tækju sér þriggja mánaða frí frá auðsköpuninni til að sinna annars konar sköpun.
Yfirskrift erindisins kvaðst Ólafur hafa sótt í heiti bókar sem er í uppáhaldi hjá syni hans og heitir „Sjóræningjar skipta ekki um bleyjur“. Þar koma við sögu sjóræningjar sem lýsa því yfir að þeir skipti ekki um bleyjur. Raunar reynist nauðsynlegt fyrir þá að að annast bleyjuskipti til að leysa það verkefni sem fyrir þá er sett. Ólafur kvaðst vona að íslenskir karlar tækju svipaðan pól í hæðina varðandi það verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir.
„Ef við hugum ekki að jafnrétti kynjanna í því uppbyggingarstarfi sem nú er að hefjast þá getum við aftur lent úti í skurði,“ sagði Ólafur. Hann taldi ljósa þörf fyrir sjónarmið kvenna í stjórnum fyrirtækja, þ.e. ábyrgð, varkárni og að gæta að hagsmunum heildarinnar. Ef þau sjónarmið hefðu fengið að vega á móti áhættusækni, gróðafíkn og fífldirfsku útrásarvíkinga hefði ef til vill ekki farið eins og fór.
„Til að konur komist að í stjórnunarstöðum í fyrirtækjunum, í pólitík og í stjórnsýslu þurfa karlar að gefa eitthvað eftir af plássinu og sömuleiðis að axla ábyrgð á heimilishaldinu til jafns við konur. Útrás kvenna í atvinnulíf og pólitík er löngu hafin. Innrás karlanna á heimilin er miklu skemmra á veg komin. Hvorugt getur verið án hins,“ sagði Ólafur.
Nýlegar kannanir Capacent sýna að hingað til hefur högg efnahagshrunsins lent þyngra á körlum en konum. Ólafur sagði ástæðu til að spyrja hvort karlar sem misst hafa vinnu muni taka að sér heimilin eins og konur í sömu sporum myndu gera. Hann taldi að það verði auðveldara þegar 37 þúsund pabbar eru komnir með reynslu.