Konur í meirihluta Umferðarráðs en Karl formaður

Jóhanna Sigurðardóttir og Kristján Möller voru meðal gesta á jafnréttisþingi …
Jóhanna Sigurðardóttir og Kristján Möller voru meðal gesta á jafnréttisþingi í morgun. mbl.is/Golli

Konur skipa nú í fyrsta skipti meirihluta í Umferðarráði. Af 23 aðalfulltrúum eru 13 konur. Karl V. Matthíasson alþingismaður er formaður en Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, er varaformaður.

Á síðasta ári var hlutfall kvenna í 45 nefndum, ráðum og stjórnum á vegum samgönguráðuneytisins 24% á móti 76% hlutfalli karla.

Í skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð var fram á jafnréttisþingi í dag kemur fram að hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum alls stjórnarráðsins jókst úr 33% árið 2006 í 36% 2007. Á sama tíma jókst hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum hjá samgönguráðuneytinu úr 16% í 20% en var á síðasta ári komið í 24% eins og getið er að framan, að því er fram kemur á vef samgönguráðuneytisins.

„Þá má geta þess að Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði í dag fulltrúa í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Í stjórninni sátu áður þrír karlar en Samband íslenskra sveitarfélaga skipar tvo fulltrúa og ráðherra einn. Ráðherra skipaði Ingileif Ástvaldsdóttur sem aðalmann og til vara Stefaníu Traustadóttur.

Einnig hefur ráðherra skipað konu í stað karls í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga en í henni sitja nú Sævar Friðgeirsson, Hafdís Karlsdóttir og Þórður Skúlason," að því er segir á vef samgönguráðuneytisins.

Sé litið á einstakar nefndir, stjórnir eða ráð í samgönguráðuneytinu er hlutfallið nokkuð ólíkt, allt frá því að vera eingöngu karlar eins og tilfellið er varðandi samgönguráð og úrskurðarnefnd siglingamála. Hlutfall kvenna fer hæst í 50% til dæmis hjá flugráði og starfshópi um landshlutasamtök sveitarfélaga og í 60% í stjórn Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. svo nokkuð sé nefnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert