Laun forseta verða lækkuð

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/RAX

Samkomulag hefur náðst á milli forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar og fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, um að laun forseta verði lækkuð á sama hátt og laun forsætisráðherra, eins af handhöfum forsetavalds, enda segir í úrskurði Kjararáðs að forseti geti sjálfur óskað eftir slíku við fjármálaráðherra.

Laun forsætisráðherra voru lækkuð um 15% og samkvæmt því munu laun Ólafs Ragnars lækka úr rúmum 1.827 þúsund krónum á mánuði í rúmar 1.553 þúsund krónur.

Eins og greint var frá á mbl.is hafnaði Kjararáð ósk Ólafs Ragnars um að laun hans verði lækkuð  á sama hátt og laun forsætisráðherra og forseta Alþingis, handhafa forsetavalds. Sagði Kjararáð að slík launalækkun sé óheimil samkvæmt stjórnarskrá.

Ráðið tók ekki afstöðu til þess hvort forsetinn gæti sjálfur afsalað sér hluta launa sinna, tímabundið eða varanlega, með tilkynningu til fjármálaráðherra, líkt og nú hefur verið gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert