Lokuðust inni í brennandi húsi

Tveir slökkviliðsmenn voru mjög hætt komnir í nótt þegar þeir lokuðust inni í brennandi timburhúsi við Klapparstíg.   Höskuldur Einarsson hjá Slökkviliðinu segir mikið lán að þeir séu á lífi. Nágranni segist hafa heyrt skerandi öskur úr húsinu við hliðina og séð eldsúlur út um gluggana.

Þegar fyrsti dælubíllinn kom á vettvang stóðu eldsúlur út um allar rúður hússins. Rúður höfðu þegar brotnað í húsinu og stöðumælir hafði bráðnað niður. Fólk sem hafði bjargast út úr húsinu var á þar á bakvið. Það taldi að ein stúlka væri inni í húsinu þannig að reykkafarar fóru rakleiðis inn bakatil.

Höskuldur Einarsson segir að mennirnir hafi fyrst slökkt smávegis eld þar niðri en haldið síðan áleiðis upp stiga upp á þriðju hæð. Þá hafi  annar reykkafarinn þurft að draga til sín meiri slöngu og snúið aftur niður stigann. Þá blossi eldur á móti honum þannig að hann hörfi upp. Uppi koma svo eldtungur á móti báðum mönnunum og eru þeir þá króaðir af. Þeir náðu þó að brjóta rúðu og komast út á svalir. Höskuldur segir að lögreglumaður hafi reist stiga við húsvegginn. Annar slökkviliðsmaður féll niður stigann og á lögreglumanninnn en hinn reykkafarinn náði að renna sér niður súlu.

Höskuldur segir reykköfun eitt það hættulegasta starf sem til sé. Svona aðstæður geti komið upp og menn telji sig vera mjög lánsama í dag að ekki hafi farið verr. Enginn slasaðist alvarlega og mikil mildi þykir að bæði íbúar og slökkviliðsmenn skyldu bjargast á síðustu stundu.

Ólafur Arnalds íbúi í húsi við hliðina segist hafa verið í samkvæmi í íbúð í sama húsi. Viðstaddir heyrðu mikil öskur á fjórða tímanum og létu sér fyrst fátt um finnast þar sem slíkt er ekki fátítt í miðbænum en þegar öskrin héldu áfram varð þeim litið út um gluggann og sjá þá mikinn eld og náðu eldtungurnar yfir að þeirra húsi. Allir viðstaddir hlupu því næst út úr húsinu. Rúður í húsi Ólafs eru brotnar og mikill reykur í húsinu. Slökkviliðið braut auk þess allar hurðir í stigaganginum til að ganga úr skugga um að enginn væri þar eftir inni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert