Mikill meirihluti forstöðumanna ríkisstofnana karlar

Frá jafnréttisþinginu í morgun
Frá jafnréttisþinginu í morgun mbl.is/Golli

Fjölmennt er á jafnréttisþingi sem hófst klukkan níu í morgun á Nordica Hilton í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn sem jafnréttisþing er haldið og ljóst af fjölda þátttakenda að áhugi á málefninu er mikill. Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra boðaði til þingsins í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að því er segir á vef ráðuneytisins.

Fyrir þinginu liggur skýrsla félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála ásamt tölfræðilegum upplýsingum um jafnrétti kynjanna. Fjölmargar hliðar jafnréttismála eru til umræðu á þinginu. Þar hafa einnig verið lögð fram til kynningar og umræðu drög að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem lögð verður fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga á komandi þingi.

Tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti kynjanna sem birtar eru í skýrslu ráðherra varpa skýru ljósi á stöðu þessara mála í samfélaginu og eru eftirfarandi dæmi fengin úr skýrslunni. Dæmin sýna svo ekki verður um villst að mikið verk er framundan við það að jafna stöðu karla og kvenna í samfélaginu, að því er segir á vef ráðuneytisins.

Konur 36% nefndarmanna innan Stjórnarráðsins

Hlutur kvenna í nefndum innan Stjórnarráðsins hefur aukist hægum skrefum og var orðinn 36% árið 2007. Í þremur ráðuneytum eru hlutur kvenna 40% eða meira, í heilbrigðisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt er á jafnréttisþingi í dag.

Skipting kynja meðal forstöðumanna ríkisstofnana var í janúar 2007 þannig að af 210 forstöðumönnum voru 162 þeirra karlar (77%) en 48 konur(23%).

Á Alþingi sitja konur í 37% þingsæta, af 12 ráðherrum eru fjórar konur, og konur fara með formennsku í fjórum af 12 fastanefndum þingsins.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 var hlutur kvenna í sveitarstjórnum tæp 36% sem var 4,8% aukning frá kosningunum 2002. Hæst var hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu þar sem konur voru 40% kjörinna fulltrúa. Í september 2008 voru konur 28% starfandi bæjarstjóra, sveitarstjóra og oddvita á móti 72 prósentum karla.

Lítið breyst til batnaðar í framkvæmdastjórn fyrirtækja

Hlutur kvenna á íslenskum vinnumarkaði var tæplega 46% árið 2007. Af framkvæmdastjórum fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði voru 19% þeirra konur á móti tæpum 80% karla. Árið 2005 var þetta hlutfall 18% svo lítið hefur breyst til batnaðar. Samkvæmt upplýsingum um stjórnir 15 félaga í Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands árið 2007 sátu 3 konur í þessum stjórnum á móti 80 körlum.

Árið 2007 var skoðað hlutfall kvenna í hópi framkvæmdastjóra hjá fyrirtækjum með 100 starfsmenn eða fleiri og voru konur 9% framkvæmdastjóranna.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert