Ráðstefna um öryggismál á norðurslóðum á vegum Atlantshafsbandalagsins og íslenskra stjórnvalda verður haldin í Reykjavík í lok janúar. Meðal ráðstefnugesta verða Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO og John Craddock, hershöfðingi og yfirmaður herafla NATO í Evrópu.
Samkvæmt upplýsingum frá NATO þurfa öryggismál á norðurslóðum nákvæmrar skoðunar við. Þar eigi sér stað miklar breytingar, sem muni hafa víðtæk áhrif á alþjóðavettvangi og séu mikilvægar þegar lagt er mat á stöðu öryggismála innan NATO.
Bráðnum íss á heimskautasvæðum og tækniframfarir muni gera orkulindir þar aðgengilegri. Á sama tíma opnist nýjar skipaleiðir, sem gætu haft gríðarleg áhrif á samgöngur í heiminum. Mörg ríki eigi hagsmuna að gæta á þessu svæði og hafi eflt herstyrk sinn þar.
Bæði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, munu ávarpa ráðstefnuna. Þá munu Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, og Søren Gade, varnarmálaráðherra Danmerkur, verða meðal ræðumanna.