Jafnréttindafélag Ísland gagnrýnir orð félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, við setningu jafnréttisþings í dag.
„Við setningu jafnréttindaþings sló Jóhanna boltann af stað með því að kenna karlmönnum um það ástand sem komið er upp. Er það heldur sérstök leið til að opna jafnréttindaþing að gefa í skyn að annað kynið sé hreinlega betra en hitt. Ljóst er að konur voru og eru í hópi auðmanna og annara aðila sem eiga hlut af máli. Jóhanna heldur því fram að konur séu hagkvæmari en karlar sem er ansi hæpinn fullyrðing í hvora áttina sem hún snýr. Enda eru einstaklingar af báðum kynjum misjafnlega hagkvæmir og aðhaldssamir.
Jafnréttindafélag Íslands er á móti kynjakvóta sem Jóhanna telur meiri þörf á en áður. Við teljum að meiri hætta sé á að hæfari einstaklingur fái ekki starf sem hann á skilið. Leitast verður þá við að uppfylla kvóta en ekki að ráða eingöngu besta fólkið. Það hlýtur að vera hagur fyrirtækis og annara sem leita að starfskrafti að leita að þeim hæfasta. Við hjá Jafnréttindafélagi Íslands teljum að ekki sé hægt að flokka kynin með þeim hætti sem Jóhanna gerir og teljum best að meta hvern einstakling fyrir sig enda eru þeir eins misjafnir og þeir eru margir, " að því er segir í ályktun Jafnréttindafélags Íslands.