Skiptar skoðanir komu fram á flokksþingi Framsóknarflokksins um tillögu, sem liggur fyrir þinginu um að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu.
„Ég vil hafa skýra valkosti," sagði Jóhannes Geir Sigurgeirsson. „Ég vil geta tekið afstöðu til þess sem kemur út úr alvöru samningaviðræðum með skýr samningsmarkmið. Kosningar um hvort fara eigi í aðildarviðræður gera ekkert annað en vekja upp hatramma umræðu um eitthvað sem enginn veit hvað er," sagði Jóhannes.
„Þetta snýst um það hvort Framsóknarflokkurinn ætlar að markaðssetja sig sem ESB-flokk eða ekki. Ég ætla að segja nei við því," sagði Sveinbjörn Eyjólfsson.
Hann sagði að tillagan, sem lægi fyrir flokksþinginu, líktist ekkert því sem menn myndu standa frammi fyrir í aðildarviðræðum. „Hvernig dettur mönnum í hug að þeir geti farið þarna inn og fengið allt en þurfi ekkert að gefa í staðinn?" sagði Sveinbjörn.
Ari Teitsson sagði, að það væri spurning hvort Framsóknarflokkurinn ætti að hafa eina skoðun í Evrópumálum; um þau væri deilt í öllum flokkum. Hann sagðist hafa efasemdir um að Evrópumálin væru þau mikilvægustu í þjóðfélaginu nú.