Skúli Helgason: Krafa um breytingar á rétt á sér

Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar
Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar

Þjóðin hefur kallað eftir breytingum, á yfirstjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og á yfirstjórn stjórnmálakerfisins.  Sumir vilja ríkisstjórnina burt, margir vilja kosningar.  Það er mikilvægt að viðurkenna að þessi krafa á fullan rétt á sér.  Þetta skrifar framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar í leiðara á vef flokksins í kvöld. Hann telur að stokka þurfi upp innan Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og gera breytingar á skipan ríkisstjórnarinnar og verkaskiptingu innan hennar.

Enginn hefur gengist við ábyrgð sinni með því að víkja

„Samfylkingin er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem ásamt Framsóknarflokknum ber meginábyrgð á ásýnd og uppbyggingu samfélagsins á síðustu öld. 

Ríkisstjórn þessara tveggja flokka var mynduð í miðju góðæri en það eru hennar örlög að standa vaktina þegar heimskreppa skellur á þjóðinni, kreppa sem án efa er dýpri fyrir tilverknað stjórnvalda, bankastjórnenda,  og auðmanna í atvinnulífinu á undanförnum árum.  Þjóðin hefur kallað eftir breytingum, á yfirstjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og á yfirstjórn stjórnmálakerfisins.  Sumir vilja ríkisstjórnina burt, margir vilja kosningar.  Það er mikilvægt að viðurkenna að þessi krafa á fullan rétt á sér. 

Þjóðin hefur horft upp á kerfishrun, sem hefur afgerandi áhrif á hag heimila og fyrirtækja í landinu, en enginn hefur gengist við ábyrgð sinni með því að víkja úr vegi og rýma til fyrir nýjum einstaklingum sem geti hafið endurreisnarstarfið með hreint borð.  Stjórnmálamenningin í landinu er þrándur í götu, það tíðkast ekki að segja af sér hér á landi nema fyrir liggi lögbrot eða sannanir  um afglöp í starfi.  Og jafnvel þó ráðherrar brjóti lög hafa þeir komist upp með að sitja áfram eins og dæmin sanna.  Þetta er óeðlilegt ástand sem kallar á uppstokkun og endurmat.  Við eigum gott orð yfir þetta í íslensku, siðbót.  Siðbótar er þörf.  Það verða stjórnmálaflokkarnir að skynja ef þeir vilja ekki losna úr tengslum við þjóðina," skrifar Skúli.

Samfylkingin getur ekki vikist undan ábyrgð

Samfylkingunni er vandi á höndum, skrifar Skúli.  „Hún getur haldið því fram, með réttu að hún beri takmarkaða ábyrgð á bankahruninu, því hún sé nýkomin til valda og flestar ef ekki allar þær forsendur innanlands sem leiddu ásamt heimskreppunni til bankahrunsins,  hafi verið lagðar af fyrri ríkisstjórn.  Gott og vel.  Um það verður ekki felldur endanlegur dómur nú.  Það er meðal annars verkefni Rannsóknanefndar Alþingis að komast að hinu sanna í þessu efni.  En Samfylkingin getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð að læra af reynslunni, og hún þarf að taka forystu við hreinsunarstarfið framundan."

Gera þarf nýjan sáttmála við þjóðina

Skúli telur að ríkisstjórnin þurfi að gera nýjan sáttmála við þjóðina.  Enginn vafi sé á því að hún hefur stjórnskipulega fullt leyfi til þess að sitja áfram út kjörtímabilið. Hins vegar hafi trúnaðurinn við þjóðina beðið hnekki og það útheimti verulegt átak að endurvinna traust þjóðarinnar. 

„Í fyrsta lagi þarf ríkisstjórnin að sýna fram á með áþreifanlegum hætti að hún skilji óánægju þjóðar sinnar, taki mark á henni og sé reiðubúin að bregðast við með breytingum sem um munar.  Þær þurfa að fela í sér uppstokkun innan Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, breytingar á skipan ríkisstjórnarinnar, verkaskiptingu innan hennar, en líka siðbót, sem felur í sér meira gagnsæi og virðingu í verki fyrir pólitísku siðferði. 

Þar skiptir m.a. máli að samþykkja siðareglur er m.a. komi í veg fyrir óeðlileg hagsmunatengsl þingmanna og annarra ráðamanna við hagsmunaaðila, endurskoða þarf lög um ráðherraábyrgð og styrkja í verki þrígreiningu ríkisvaldsins. 

Þá þarf að gefa þjóðinni skýr fyrirheit um framtíðina, ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu skiptir þar verulegu máli en jafnframt þarf að móta nýja atvinnustefnu, hefja markvissa gagnsókn gegn atvinnuleysinu, forgangsraða í þágu velferðarþjónustu og almannahagsmuna  í ríkisfjármálum og leggja fram raunhæfar tillögur um sparnað í ríkiskerfinu sem fékk að blása út í góðærinu," að því er fram kemur í leiðara Skúla Helgasonar á vef Samfylkingarinnar.

Leiðari Skúla Helgasonar í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert