Stefna slökkviliði Árborgar vegna símapeninga

mbl.is/BÁ

Liðsmenn Bruna­varna Árnes­sýslu hafa stefnt slökkviliðinu fyr­ir héraðsdóm vegna van­gold­inna síma­greiðslna síðustu þriggja ára. Starfs­menn segja um kjara­samn­ings­bundn­ar greiðslur að ræða og van­skil nemi nú rúm­lega 3,6 millj­ón­um króna, án vaxta og kostnaðar.

Rúm­lega 60 starfs­menn eru skráðir hjá slökkviliði Bruna­varna Árnes­sýslu, (BÁ) en ákveðið var að höfða mál fyr­ir hönd 25 þeirra. Starfs­menn vísa í ákvæði kjara­samn­ings Launa­nefnd­ar sveit­ar­fé­laga og
Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna. Þar seg­ir að greiða beri starfs­mönn­um slökkviliðsins sér­staka þókn­un tvisvar á ári fyr­ir að bera alltaf á sér síma þannig að til þeirra ná­ist á nóttu sem degi. Í dag nem­ur þessi upp­hæð rúm­lega 9.800 krón­um eða sam­tals tæp­lega 20 þúsund krón­um á ári.

Símaþókn­un­in hef­ur ekki verið greidd í nokk­ur ár en ákveðið var að hefja inn­heimtuaðgerðir vegna ár­anna 2006, 2007 og 2008. Form­leg­ar inn­heimtuaðgerðir hóf­ust fyr­ir rúm­um þrem­ur mánuðum en karpað hef­ur verið um greiðslurn­ar mun leng­ur.

For­manni stjórn­ar BÁ voru birt­ar stefn­ur 25 starfs­manna fyr­ir nokkru en sam­kvæmt upp­lýs­ing­um mbl.is, hóf­ust form­leg­ar samn­ingaum­leit­an­ir fyrst í gær með at­beina Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga.

Mar­grét K. Erl­ings­dótt­ir, formaður stjórn­ar Bruna­varna Árnes­sýslu vildi ekk­ert tjá sig um málið. Hún sagði að um launa­mál starfs­manna væri að ræða og viðræður væru í gangi.

Eins og áður seg­ir nema van­goldn­ar síma­greiðslur rúm­lega 3,6 millj­ón­um króna. Þá er hvorki búið að taka til­lit til vaxta eða drátt­ar­vaxta né máls­kostnaðar.

Samn­ingaum­leit­an­ir hafa hingað til ekki borið ár­ang­ur og verða stefn­ur starfs­mann­anna 25 gegn slökkviliðinu því þing­fest­ar að óbreyttu á miðviku­dag.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert