Stefna slökkviliði Árborgar vegna símapeninga

mbl.is/BÁ

Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu hafa stefnt slökkviliðinu fyrir héraðsdóm vegna vangoldinna símagreiðslna síðustu þriggja ára. Starfsmenn segja um kjarasamningsbundnar greiðslur að ræða og vanskil nemi nú rúmlega 3,6 milljónum króna, án vaxta og kostnaðar.

Rúmlega 60 starfsmenn eru skráðir hjá slökkviliði Brunavarna Árnessýslu, (BÁ) en ákveðið var að höfða mál fyrir hönd 25 þeirra. Starfsmenn vísa í ákvæði kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og
Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Þar segir að greiða beri starfsmönnum slökkviliðsins sérstaka þóknun tvisvar á ári fyrir að bera alltaf á sér síma þannig að til þeirra náist á nóttu sem degi. Í dag nemur þessi upphæð rúmlega 9.800 krónum eða samtals tæplega 20 þúsund krónum á ári.

Símaþóknunin hefur ekki verið greidd í nokkur ár en ákveðið var að hefja innheimtuaðgerðir vegna áranna 2006, 2007 og 2008. Formlegar innheimtuaðgerðir hófust fyrir rúmum þremur mánuðum en karpað hefur verið um greiðslurnar mun lengur.

Formanni stjórnar BÁ voru birtar stefnur 25 starfsmanna fyrir nokkru en samkvæmt upplýsingum mbl.is, hófust formlegar samningaumleitanir fyrst í gær með atbeina Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Margrét K. Erlingsdóttir, formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu vildi ekkert tjá sig um málið. Hún sagði að um launamál starfsmanna væri að ræða og viðræður væru í gangi.

Eins og áður segir nema vangoldnar símagreiðslur rúmlega 3,6 milljónum króna. Þá er hvorki búið að taka tillit til vaxta eða dráttarvaxta né málskostnaðar.

Samningaumleitanir hafa hingað til ekki borið árangur og verða stefnur starfsmannanna 25 gegn slökkviliðinu því þingfestar að óbreyttu á miðvikudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert