Stjórn LÍÚ fagnar kvótaaukningu

Þorskur á markaði
Þorskur á markaði Reuters

Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, fagnar þeirri ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að auka heildaraflamark í þorski á yfirstandandi fiskveiði ári um 30.000 tonn. Jafnframt fagnar stjórn LÍÚ þeirri yfirlýsingu ráðherra að gert sé ráð fyrir því að heildaraflamark í þorski verði ekki lægra en 160 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári.

Þessi yfirlýsing gefur útgerðinni tækifæri til að að skipuleggja rekstur sinn fram í tímann, að því er segir á vef LÍÚ .

„Stofnmælingar Hafrannsóknastofnunarinnar í haust gáfu jákvæðar vísbendingar um að árgangar þorsks frá 2007 og 2008 væru mun sterkari en talið hafði verið. Heildarvísitala þorsks mældist þá hærri en áður í 12 ára sögu mælinganna.

Áætla má að verðmæti þessarar aflaaukningar geti numið 10 milljörðum króna eða meira í útflutningstekjum fyrir þjóðarbúið. Ákvörðun ráðherra um aukið aflamark í þorski stuðlar jafnframt að arðbærari veiðum annarra tegunda, sérstaklega ýsu," að því er fram kemur á vef LÍÚ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert