Hátt í 1.000 íbúðir um land allt eru nú á skrá hjá Leigulistanum og eru 825 þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma í fyrra voru 200 íbúðir á skrá. Fór íbúðum á skrá að fjölga í byrjum sumars og hefur hann tvöfaldast frá því í sumarlok.
Að sögn Hildar Ketilsdóttur, starfsmanns Leigulistans, hefur leiguverð almennt lækkað um 20%. Áður hafi leiguverð 2-3 herbergja íbúðar í 101 ekki farið undir 2.000 kr. á fermetrann, en sé nú komið niður í 1.600 kr. og í sumum tilfellum jafnvel niður í 1.250 kr. Hjá leigumiðluninni Rentus hefur leiguverð að jafnaði lækkað um 10-20%. „Fólk semur meira um leiguverð en áður. Í einstaka tilfellum hefur verið um töluverða lækkun að ræða en minni í öðrum,“ segir Björgvin Víðir Guðmundsson, viðskiptastjóri Rentus.
En þótt leiguverð hafi lækkað vegna aukins framboðs er þó, að sögn Hildar, takmarkað hversu mikið fólk hefur tök á að lækka leiguverð vegna afborgana af lánum. „Við höfum þó heyrt að fólk sé að borga með húsnæðinu,“ segir hún.
Mun meira af atvinnuhúsnæði er þá á skrá nú en áður og er framboð þess hjá Leigulistanum tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra. Hjá fasteignasölunni Eignamiðlun gengur líka betur að leigja út íbúðir en atvinnuhúsnæði.