Umferðin í höfuðborginni dróst að meðaltali saman um tæp 6% milli mælinga í októbermánuði 2008 og 2007. Umferðin mælist nú á svipuðu róli og hún var á árunum 2002-2004. Þetta kemur fram í nýjustu umferðartalningum sem kynntar hafa verið í umhverfis- og samgönguráði borgarinnar. Að sögn Bjargar Helgadóttur, verkefnisstjóra á samgönguskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem umsjón hafði með talningunni, má fyrst og fremst rekja minnkandi umferð til breytts efnahagsástands þjóðarinnar, en einnig til aukinnar meðvitundar um umhverfið. Fólk hefur þannig dregið úr akstri og er farið að ganga meira og hjóla auk þess að nýta í auknum mæli almenningssamgöngur.