Palestínumenn á Íslandi fylgjast hræddir og sárir með atburðum á Gaza. Amal Tamimi segir samlanda sína hittast reglulega á vettvangi félagsins Ísland Palestína og taka þátt í þeim mótmælaaðgerðum sem félagið skipuleggur. Enginn Palestínumaður á Íslandi hefur búið í Gazaborg en flestir þekkja einhverja sem þar eru.
Amal segist fylgjast grannt með arabísku sjónvarpi , bæði Al Jazeera og eins Al Manar, stöð Hizbollah hreyfingarinnar til að fá nýjustu fréttir af atburðum í heimalandinu.
Amal segir að það sé fáránlegt sé ekki hægt að bera saman Hamas og Ísrael. Tólf hafi fallið fyrir Hamas en meira en fjórtán hundruð fyrir Ísraelsmönnum. Fólk verði að gera sér fyrir því að Hamas séu lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Palestínu. Ísraelsmenn verði að draga sig í hlé til að sjúkraflutningafólk og læknar geti farið ferða sinna. Það séu mörg dæmi um fólk sem sé lifandi í húsarústum en það sé ekki hægt að koma til þeirra aðstoð.
Hún segist óska þess að vestræn ríki slíti stjórnmálasambandi við Ísrael auk þess að fordæma það sem þar er að gerast. Það sé þó varla við því að búast þegar arabaríkin sjálf þori ekki að lyfta fingri vegna áhrifavalds Bandaríkjanna. Ísraelar séu að fremja stríðsglæpi og þá verði að stöðva. Enginn þori þó að tala um stríðsglæpi á Vesturlöndum. Fyrir Ísraelsmönnum vaki hinsvegar að útrýma Palestínumönnum.