Bílasalar hafa undanfarna mánuði, allt frá því fyrir bankahrunið, séð það sem þeir kalla ljót dæmi um vörslusviptingar á bifreiðum. Mörgum fjármögnunarsamningum hefur verið rift síðustu mánuði, enda oft í erlendri mynt og hafa því hækkað með falli krónunnar.
Sveinbjörn R. Árnason hjá Bílamarkaðnum í Kópavogi segir að bílar séu teknir af fólki í greiðsluerfiðleikum og þeir verðmetnir niður úr öllu raunhæfu samhengi. Jafnvel allt að helming raunverðs í krónum talið. „Síðan er smurt á viðgerðarkostnaðaráætlun upp á tugi ef ekki hundruð þúsunda króna. Afföllum upp á 15% af matsverði er bætt við þar á eftir,“ segir Sveinbjörn. „Eftir stendur reikningur upp á milljónir, sem velt er yfir á skuldarann. Þetta kalla ég bílarán en ekki bílalán,“ bætir hann við.
Sveinbjörn útskýrir að skuldurum bjóðist að setja eftirstöðvarnar á skuldabréf í krónum með veði í fasteign. „Þá er búið að festa gengishagnaðinn í krónum og lántakandinn situr eftir með sárt ennið.“
Annað mál sem vekur furðu er kostnaðurinn við skoðun á bílum sem hafa verið teknir úr vörslu fólks. Fyrir endursölu eru þeir verðmetnir hjá þar til bærum aðilum. „Ég hef séð svart á hvítu reikning frá bílalánafyrirtæki upp á 212.000 krónur fyrir verðmat á bíl sem var tekinn úr vörslu fólks. Þetta er í mesta lagi klukkustundar vinna, að meta eina bifreið. Þetta kallar maður óréttlæti á hæsta stigi,“ bætir Sveinbjörn við.
Þá segir Sveinbjörn það vekja furðu að þröngur hópur tengdra aðila fái að selja bíla bílalánafyrirtækjanna hratt og ódýrt, en um leið sé fáum boðið að bjóða í þá. „Þriðji aðili nær hagnaði við endursöluna, en eftir situr lántakandinn með eftirstöðvarnar.“
Hann spyr sig hvort það þjóni hagsmunum bílalánafyrirtækja að sækjast ekki eftir hæsta mögulega verði. Slíkir gerningar felli verð á bílamarkaðnum almennt og bíleigendur allir gjaldi í raun fyrir það.
Skuldin áfram þótt bíllinn sé seldur