Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir að ákvörðun um aukningu þorskkvótans sé tekin í ljósi efnahagsástandsins, fyrst og fremst. „Við erum ekki að ganga á þorskstofninn heldur er hér áfram fylgt reglum um ábyrgar veiðar,“ segir ráðherra.
„Ákvörðunin 2007 var tekin í ljósi lakrar stöðu stofnsins. Gert var ráð fyrir markvissri uppbyggingu en á henni er verið að hægja með þessari ákvörðun.“ Ráðherra gefur fyrirheit um svipað aflamark á næsta fiskveiðiári. „Það verður engu að síður háð mati Hafrannsóknastofnunarinnar sem mun koma fram í kjölfar togararallsins síðar á árinu. Ég tel að undan því eigi ekki að víkjast að halda áfram uppbyggingarstarfi þorskstofnsins og það er höfuðmarkmiðið,“ segir Einar K. Guðfinnsson.