Á fjórða tug manna mættu á mótmælafund í Mývatnssveit í dag og er það um 10 % fullorðinna íbúa sveitarinnar. Voru forsvarsmenn fundarins ánægðir með mætinguna.
Fundurinn hófst á stuttu ávarpi þar sem fram kom að aðstandendum fundarins finnst mikilvægt að fólk geti komið saman og sent yfirvöldum skilaboð um að fólk sé ósátt við aðgerðaleysi og þá þögn sem einkennir aðgerðir ráðamanna. Að því loknu var gullkálfurinn grýttur og hrakinn á brott með táknrænum hætti.
Að endingu mynduðu fundargestir hring og íhuguðu með fimm mínútna þögn ástandið í þjóðfélaginu í dag.
Til stendur að halda annan mótmælafund að viku liðinni í Dimmuborgum og hyggjast aðstandendur mótmælanna halda áfram að mótmæla næstu laugardaga, eins lengi og þörf krefur.