Sjóvá hefur sagt upp samningum við bílaverkstæði vegna tjónaviðgerða. Varahlutir verða framvegis keyptir í nafni Sjóvár og á reikning félagsins hjá varahlutasölum í stað þess að verkstæðin kaupi varahlutina. Óánægja er meðal eigenda verkstæða vegna þessa, að sögn framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. Eigendur verkstæða segi að þetta geti þýtt að þeir verði að hætta.
Sjóvá tilkynnti verkstæðunum um þessa ákvörðun 28. nóvember. Í bréfi til verkstæðanna kemur fram að kostnaður vegna kaupa á nýjum varahlutum vegi þungt í viðgerðarkostnaði ökutækja og hafi farið stigvaxandi síðustu ár. Tryggingafélagið kveðst reiðubúið að koma til móts við tekjutap sem af þessu leiðir með samningi um tjónamat og viðgerðir.
Róbert Bjarnason, forstöðumaður tjónasviðs ökutækjatjóna hjá Sjóvá, sagði að kostnaður Sjóvár vegna bílavarahluta hafi verið kominn í um 600 milljónir á ári. Hann sagði að samið hefði verið við bílaverkstæðin þegar svonefnt CABAS-tjónamatskerfi var innleitt árið 2002. Þá var samið um að verkstæðin legðu til varahluti. Fram að því höfðu flest tryggingafélög yfirleitt gefið út beiðnir fyrir því sem þurfti að kaupa til viðgerðanna.
Þeir sem selja verkstæðunum varahluti hafa gefið þeim afslátt sem tryggingafélagið hefur ekki notið, nema þá að hluta. „Það að kaupa varahluti með háum afslætti og selja okkur með litlum afslætti, hvetur til þess að kaupa frekar nýtt en að gera við jafnvel þó að hagkvæmara hafi verið að gera við. Við viljum líka hafa eitthvað um það að segja hvað er keypt og að það sé þá tekið út í reikning hjá Sjóvá.“