Geir Haarde forsætisráðherra hefur svarað skoskum gagnrýnendum sem hafa notað ástandið á Íslandi, þ.e. hrun fjármálakerfisins hér á landi, sem ástæðu til að lýsa andstöðu við sjálfstæðistilburði Skota. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Geir segir í viðtali við BBC [sem birtir fyrir mistök mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands] að Skotar eigi ekki að vera of fljótir að dæma Ísland úr leik. Hann heldur því fram að Ísland geti náð sér aftur á strik fyrr en fjölmennari og stærri ríki.
Það sé enn til athugunar hvort Ísland eigi að hefja mál gegn Bretum vegna beitingar hryðjuverkalöggjafarinnar. Tekið er fram að Geir saki Breta um að misbeita valdi sínu gagnvart fámennri þjóð.
Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, hefur horft til Íslands, og annarra sjálfstæðra smáríkja á borð við Írland og Noreg, og sagt að þau séu dæmi um ríki sem Skotar gætu lært af, að því er segir á vef BBC.
Ríkin hafa hins vegar öll lent í vandræðum vegna fjármálakreppunnar. Salmond hefur kallað ríkin „hringboga velmegunar“, en nú hafa stjórnarandstöðuþingmenn kallað ríkin „hringboga gjaldþrota“.
Þeir halda því fram að núverandi staða ríkja á borð við Ísland sýni fram á að sjálfstætt Skotland myndi standa á brauðfótum.