Kryddlegin Baugshjörtu

Einar Már Guðmundsson
Einar Már Guðmundsson

Einar Má Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallar um mótmælin á gamlársdag þegar kaplar voru skornir í sundur fyrir Hótel Borg þar sem þáttur Stövar 2 Kryddsíld var tekinn upp.

„Áður en kaplarnir voru skornir í sundur vorum við stödd í bíómynd eftir Luis Bunuel. Hún fjallaði um yfirstétt sem hefur ekki hugmynd um heiminn fyrir utan og heldur bara áfram að skemmta sér og lætur sem ekkert hafi í skorist. Á gamlársdag lék Sigmundur Ernir aðalhlutverkið í þessari mynd, sjálfan sirkusstjóra valdsins. Leikstjórinn var Ari Edwald en framleiðandinn 365 eða réttara sagt Baugur. Handritið fór að vísu úr böndum og tökur klikkuðu.

Ef við lítum á þetta í örlítið víðara samhengi blasir við sú staðreynd að á bak við allan fjölbreytileikann, sem nútíminn hefur skreytt sig með á þessu söguskeiði frjálshyggjunnar, hefur í raun búið ótrúleg einsleitni. Lýðræði fjölmiðlanna hefur hreiðrað um sig í yfirborðskenndum lífsstílsþáttum og öll frjálsu skoðanaskiptin verið merkilega ófrjáls, eins og dæmin sanna með ýmsum uppljóstrunum síðustu missera, þegar blaðamenn Baugsmiðlanna, ungir sem aldnir, reyndir sem óreyndir, hafa byrjað að flauta eða syngja, sem sé að segja frá reynslu sinni af ritskoðun í þágu eigendanna. Fyrir nokkrum árum, á sjálfu söguskeiði frjálshyggjunnar, benti rithöfundurinn Milan Kundera á þetta en í dálítið öðru samhengi. Hann sagði: „Litlu varðar þótt í hinum ýmsu málgögnum gæti mismunandi hagsmuna. Að baki þeim yfirborðsmun ríkir sami andi. Það nægir að fletta amerískum og evrópskum vikublöðum, til vinstri jafnt sem hægri, frá Time til Spiegel. Öll boða þau sömu lífssýn sem speglast í sama efnisyfirliti, sömu dálkum, sama blaðamennskusniði, sama orðaforða, stíl, smekk og gildismati. Þetta samlyndi fjölmiðla, falið á bak við pólitíska fjölbreytni, er andi okkar tíma.“ Milan Kundera sagði skáldsöguna andhverfa þessum anda. Hún tjáir önnur viðhorf en handhafar sannleikans, hvort heldur er um að ræða fréttastofur fjölmiðla eða stjórnmálamenn. Verksvið skáldsögunnar er leitin, samskipti mannanna á bak við vígorðin og tuggurnar, gleðin sem rúmast ekki í fréttayfirlitinu og sorgin handan fyrirsagnarinnar. Það sem Milan Kundera er líka að segja er að sjálf ritskoðunin þarf ekki að fara fram með beinni skipan eigendanna, ekki í boðhætti, heldur er hún hluti af gildismatinu, andrúmslotinu, anda okkar tíma.

Kryddsíldarþátturinn var einmitt gott dæmi þetta, um þennan anda, að allt sé eins og áður, með dúklögðum borðum, bjór, síld og þjónustustúlkum, yfirborðskenndum spurningum og utanaðbókarlærðum svörum. Það á bara að velta kreppunni yfir á fólkið í landinu og halda partíinu áfram eins og ekkert hafi ískorist. Allt sem ríkisstjórnin gerir lýsir svo vel hverjir hafa haldið um valdataumana, hverjir halda um valdataumana og hverjir ætla sér að halda um valdataumana. Íslenskur almenningur á að hreinsa upp eftir þetta lið í margar kynslóðir og það ætlar að halda áfram að stjórna okkur. Það er búið að skuldsetja okkur út á kaldan klaka, veðsetja okkur inn í framtíðina og þegar við mótmælum fáum við á okkur skrílsstimpil og jafnvel fabúleringar um klæðaburð frá utanríkisráðherranum við dúklagt borð Kryddsíldarinnar. Það á ekki að bæta tjónið með því að sækja það til þeirra sem ollu því heldur á að velta því yfir á okkur, á almenning, enn einu sinni. Þeir sem kveiktu í húsinu ætla að beina athyglinni að unglingnum sem hrækti á gangstéttina. Auðstéttin vill að öll andstaða sé brotin á bak aftur með lögreglukylfum og gasi en neitar sjálf að axla alla ábyrgð. Um leið og auðstéttin axlar sína ábyrgð, og ríkisstjórnin og eftirlitsstofnanir hennar, þá hætta þessi mótmæli sjálfkrafa. Ef Ari Edwald og Sigmundur Ernir segja yfirboðurum sínum að axla ábyrgð þá geta þeir hámað í sig eins mikla síld og þeir geta í sig látið. Lögreglan ætti frekar að taka upp kylfurnar og flengja ríkisstjórnina, auðstéttina og handlangara hennar á fjölmiðlunum. Ég held að lögregluþjónarnir eigi meiri samleið með okkur sem mótmælum en auðstéttinni sem líka hefur veðsett börnin þeirra, skrifar Einar Már Guðmundsson.

Greinina í heild er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert