Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem vöruðu við hruni bankanna. Hann segir nokkur atriði standa upp úr í því sem búið sé að gera. Í fyrsta lagi stofnun nýrra banka á rústum þeirra gömlu. Bráðnauðsynlegt hafi verið að halda greiðslumiðlun og lágmarksbankaþjónustu gangandi en nýju bankarnir séu reyndar ekki mjög burðugir.
Í öðru lagi nefnir hann stuðning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samninga sem gerðir voru við erlenda seðlabanka í tengslum við aðkomu sjóðsins. Það hafi verið mikilvægt og bráðnauðsynlegt skref.
„Það er búið að berja saman einhver fjárlög fyrir þetta ár, sem eru líklega eins þokkaleg og hægt er að óska eftir. Hallinn á ríkissjóði er mikill en það hefði gert dýfuna enn skarpari ef reynt hefði verið að skila hallaminni eða jafnvel hallalausum fjárlögum. Þó er ljóst að enn á eftir að ganga mikið á í ríkisfjármálum á næstu árum, bæði vegna þess að koma þarf rekstrinum nálægt núllinu á 2-3 árum og síðan eru óhemju skuldir sem greiða þarf af.“
Gylfi nefnir nokkur mál sem eru óleyst á þessum tíma síðan neyðarlögin voru sett. Lítið sé búið að gera í þeirri staðreynd að stór hluti fyrirtækja landsins sé með mjög slæma lausafjárstöðu og jafnvel neikvæða eiginfjárstöðu. Hið sama megi segja um fjölmörg heimili.
Stjórnvöld hafa þurft að glíma við hvern vandann á fætur öðrum og ekki séð mikið til sólar. Gylfi telur það geta verið gilda afsökun fyrir því að hafa ekki náð að leysa öll mál.
„Fljótlega þarf að koma með einhverja trúverðuga áætlun um hvernig eigi að bregðast við, þannig að þeir sem eru í vandræðum sjái hvað er framundan og geti unnið úr sínum málum í samræmi við það. Þegar svona mörg fyrirtæki eru í vandræðum þá þorir í raun enginn að gera neitt. Allir eru að hugsa um að halda sér á floti og taka enga áhættu. Við þær aðstæður verður ekki mikil uppbygging. Stofnun nýrra fyrirtækja er eitt af því sem þarf að gerast til að allt það fólk sem missir vinnuna út af gjaldþrotum og samdrætti geti fengið vinnu aftur.“
Til að atvinnuleysi verði ekki til langs tíma kallar Gylfi eftir frekari aðgerðum og skýrum línum um hvaða fjármagn verður hægt að fá, hvaða fyrirtækjum verður haldið á floti og hvernig tekið verður á fjármálum heimilanna.