Siv Friðleifsdóttir formaður þingflokks Framsóknarflokksins er alsæl með nýjan formann Framsóknarflokksins og segir hann fullan af baráttuþreki og bjartsýni og hafa heillað þingheim á flokksþinginu upp úr skónum. Hún segir að sér líði ekki eins og flokknum hafi verið rænt, frekar eins og honum hafi verið bjargað. Flokksmenn í Framsóknarflokknum hafi viljað breytingar og það endurspeglist í þessu kjöri.
Siv er hluti af gömlu flokksforystunni en hefur hinsvegar staðið utan við hið svokallaða flokkseigendafélag sem var talið standa á bak við formannsframboð Páls Magnússonar sem fékk ekki nema átján prósent atkvæða. Aðspurð um hvort flokkseigendafélagið hafi fengið falleinkunn segir hún að líklega séu ákveðin skilaboð fólgin í þessari niðurstöðu
Formaðurinn er utan þings, ungur og hefur verið stuttan tíma í Framsóknarflokknum. Siv segir þessar nýju aðstæður sjálfsagt eiga eftir reyna mikið á hana sem þingflokksformann og þingflokkinn allan. Hún hyggur þó ekki á neinar breytingar sjálf og segist hlakka til að starfa með nýrri forystu.