Fréttaskýring: Framsókn kveður fortíðina

Framsóknarmenn kjósa nýjan formann á landsþinginu í gær.
Framsóknarmenn kjósa nýjan formann á landsþinginu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Skilaboðin frá flokksþingi Framsóknar sem lauk í gær eru skýr: Nú verður gert upp við fortíðina og gengið í takt til móts við nýja tíma. Mikil spenna ríkti í Valsheimilinu alla helgina. Fyrst þurfti að takast á við Evrópumálin með málamiðlunarályktun um aðildarviðræður með skilyrðum. Skoðanir eru skiptar innan flokksins og meðal kjósenda en engu að síður var ályktunin samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Þrátt fyrir smáspennufall var dramatíkinni ekki lokið. Framundan var kosning um embætti formanns, varaformanns og ritara flokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom sterkur út úr kappræðum milli fjögurra af fimm formannsframbjóðendum á laugardag. Tillaga Páls Magnússonar um að formaður Framsóknar skyldi sækjast eftir embætti forseta Alþingis kæmist flokkurinn í ríkisstjórn, vakti verðskuldaða athygli. Eins og einn fulltrúa á þinginu orðaði það þá flutti Páll framboðsræðu en Sigmundur leiðtogaræðu. Því má svo bæta við að Höskuldur Þór Þórhallsson hafi haldið þingræðu sem hefði getað verið kröftugri.

Þá var spurningin: Hvað höfðar mest til framsóknarmanna?

Páll datt út í fyrstu umferð

Á sunnudag magnaðist spennan upp og frambjóðendur gengu manna í milli í von um að ná til sín nokkrum atkvæðum á lokasprettinum. Samþykkt hafði verið lagabreyting þannig að formaður þyrfti að fá yfir 50% atkvæða, en það sama átti við um varaformann og ritara. Ljóst þótti að það stefndi í tvær umferðir en enginn sem Morgunblaðið ræddi við treysti sér til að spá fyrir um úrslitin. Flestir töldu að Páll færi áfram í aðra umferð og þyrfti að kljást annaðhvort við Höskuld eða Sigmund. Þeir tveir síðarnefndu þóttu endurspegla nýja tíma í flokknum en Páll var með þann þunga farangur að hafa unnið náið með bæði Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur. Hann naut þess hins vegar að hafa meiri reynslu af stjórnmálum.

Það kom því mörgum í opna skjöldu að Páll skyldi aðeins hljóta tæp 19% atkvæða í fyrstu umferðinni. Flestir voru sammála um að það væri ekki persóna Páls sem tapaði svo afgerandi heldur fortíð hans og tengsl við stóran valdahóp innan flokksins, sama hóp og er úthrópaður fyrir spillingu, pólitískar ráðningar og að hafa leitt þjóðina á þann stað sem hún er á núna.

Ekki hefð fyrir formannsslag

Í Framsókn er ekki mikil hefð fyrir því að kjósa milli formannsframbjóðenda og oft hefur fyrri formaður hlutast til um eftirmann sinn. Árið 1944 felldi Hermann Jónasson sitjandi formann, Jónas Jónsson frá Hriflu. Ekki var tvísýn kosning aftur fyrr en 62 árum síðar þegar kosið var milli Sivjar Friðleifsdóttur og Jóns Sigurðssonar árið 2006. Siv laut í lægra haldi en formennska Jóns var ekki löng þar sem hann sagði af sér eftir að hafa ekki náð kjöri til þings. Guðni Ágústsson tók við en hætti eftir síðasta miðstjórnarfund flokksins. Valgerður Sverrisdóttir varð þá formaður en ákvað að gefa ekki kost á sér til embættisins núna. Þar hefur hún greinilega lesið stöðu sína rétt enda hefði hin ríka krafa um breytingar ekki skilað henni formannsstólnum.

Í varaformannskosningunni í gær tókust á Siv Friðleifsdóttir og Birkir J. Jónsson. Siv spilaði inn á kynjasjónarmiðið, enda hefur Framsókn gefið sig út fyrir að stuðla að jafnrétti kynjanna og er t.a.m. með fleiri konur en karla í þingflokki sínum. Birkir sló hins vegar á ungliðastrengina en hann er tæplega þrítugur og hefur setið á þingi síðan árið 2003. Birkir hafði betur og Eygló Harðardóttir velti Sæunni Stefánsdóttur úr sæti ritara flokksins.

Kjördæmasjónarmiðið spilaði líka inn í kosningarnar. Formaðurinn er úr Reykjavík en alls óvíst er hvar hann færi fram í þingkosningum. Varaformaðurinn er úr Norðausturkjördæmi og ritarinn úr Suðurkjördæmi.

Þá er bara spurningin hvernig hin nýja Framsókn hugnast íbúum nýja Íslands.

Stjórnmálin brugðust

Stjórnmálin hafa brugðist og traust er af skornum skammti í þjóðfélaginu, segir í stjórnmálaályktun sem flokksþing Framsóknar sendi frá sér. Þar kemur fram að Framsókn hafi brugðist í því að tryggja laga- og reglugerðarumhverfi. „Frelsi fylgir ábyrgð, en ábyrgðinni var ábótavant. Úr því verður að bæta,“ segir í ályktuninni og ríkisstjórnin er átalin fyrir að hafa ekki hlýtt á viðvaranir og í staðinn afneitað vandanum. Hún hafi gert mörg mistök á fyrstu dögum bankahrunsins og að sama skapi hafi Seðlabankinn brugðist. „Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar aðgerðir í bland við þær hefðbundnari. Framsóknarflokkurinn telur að á næstu dögum og vikum þurfi með markvissum hætti að vinna aðgerðaáætlun í víðtæku samstarfi,“ segir í ályktuninni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýr formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýr formaður Framsóknarflokksins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert