Gjaldeyrisforði Seðlabankans var í lok desember síðastliðinn ríflega 429 milljarðar króna. Þetta er um þriðjungur af landsframleiðslu síðastliðins árs og mun stærri forði en var við upphaf síðastliðins árs en þá nam hann 163 milljörðum króna, eftir því sem fram kemur í fréttabréfi Greiningar Glitnis.
Gjaldeyrisforðinn stækkað hratt á síðastliðnu ári, bæði vegna gengisbreytinga, en eignirnar eru að mestu erlend verðbréf og innistæður í erlendum fjármálastofnunum, en einnig vegna erlendrar lántöku sem nýtt hefur verið til að efla forðann. Þannig hafa erlendar skuldir Seðlabankans vaxið undanfarið og námu þær tæplega 239 milljörðum króna í lok síðastliðins árs. Um 104 milljarðar af því er skuld við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Erlendar skuldir Seðlabankans voru 112 milljarðar í upphafi árs 2008.
Í fréttabréfi Greiningar Glitnis segir að Seðlabankinn hafi nýtt gjaldeyrisforða sinn undanfarið til að verja krónuna fyrir falli. Þannig hafi bankinn verið nær eini frambjóðandi eða nettóseljandi af gjaldeyri á uppboðsmarkaðinum með gjaldeyri sem hér var við lýði rétt eftir hrun bankanna í október og nóvember.
Í fréttabréfi Greiningar Glitnis segir ennfremur að með enn frekari styrkingu gjaldeyrisforðans, bæði með auknum lántökum frá IMF og lánum frá fleiri aðilum, sé búið í haginn fyrir afnám gjaldeyrishaftanna sem hér hafa verið við lýði frá hruni bankanna í október. Greining Glitnis segir líklegt að næstu skref í afnámi haftanna verði stigin í kjölfar stöðumats Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í febrúar. Gangi það vel megi búast við því að í kjölfarið fylgi lækkun stýrivaxta Seðlabankans sem nú eru 18%. Greining Glitnis reiknar með fyrstu vaxtalækkun ársins í mars.